„Óhappið varð til þess að ég ákvað að endurhugsa hlutina“

Rosalie lítur björtum augum á lífið.
Rosalie lítur björtum augum á lífið. Samsett mynd

Rosalie Rut Sigrúnardóttir, alla jafnan kölluð Rosa eða Queen Rosa, heillar alla upp úr skónum með yndislegri nærveru sinni, smitandi brosi og óbilandi orku. Þessi metnaðargjarna kona þarf að hafa nóg fyrir stafni og er tilbúin að leggja mikið á sig til að láta framtíðardraumana rætast.

Margir landsmenn, þá sérstaklega leikhúsunnendur, kannast án efa við andlit Rosalie, en hún stendur reglulega vaktina í forsal Borgarleikhússins þar sem hún tekur á móti spenntum leikhúsgestum. Rosalie prýðir einnig nýjustu auglýsingar íslenska verslunarrisans Hagkaup.

Blaðamaður náði tali af Rosalie og fékk að heyra um framtíðaráform hennar, drauma og daglegt líf. 

„Já, hvar á ég að byrja? Ég heiti Rosalie, sjaldan kölluð annað en Rosa. Þegar ég heyri kallað Rosalie, þá líður mér dálítið eins og það sé verið að skamma mig. Ég fagnaði 24 ára afmæli mínu þann 1. mars síðastliðinn og er því í fiskamerkinu. Ég er sko alls enginn fiskur,“ segir hún og hlær. 

Lærdómsríkt skiptiár

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Rosalie afrekað ansi margt á lífsleiðinni. „Ég fór í skiptinám til Bandaríkjanna árið 2017. Það var lærdómsrík, gefandi og mótandi reynsla og klárlega ein af bestu ákvörðunum lífs míns.

Ég bjó í St. Louis Park, sem er staðsett í tíu mínútna fjarlægð frá Minneapolis, og flutti þar inn til fjölskyldu. Ég varð strax hluti af fjölskyldunni og í fyrsta sinn á ævinni fékk ég að upplifa feðginasamband, það var mjög dýrmætt,“ segir hún. 

Fjölskylda Rosalie samanstendur af þremur kvenskörungum, móður hennar, eldri systur og henni sjálfri eða Skyttunum þremur eins og þær kjósa að kalla sig. 

Skytturnar þrjár.
Skytturnar þrjár. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir tæplega eins árs dvöl sneri ég aftur heim til Íslands en ég var á sífelldum flækingi á menntaskólaárunum. Stuttu eftir heimkomu pakkaði ég fötunum mínum í tösku og hélt aftur af stað en í þetta sinn fór ég til Svíþjóðar, nánar tiltekið Malmö,“ útskýrir hún. 

Rosalie eyddi dágóðum tíma í sænsku borginni þar sem hún lagði stund á nám sem kallast Peace & conflict við háskólann í Malmö. „Námið var áhugavert en ég fann þó fljótlega að það átti ekki alveg við mig. Eftir yndislega mánuði í borginni þá lenti ég í því að verða fyrir bíl. Það var ekið á mig þegar ég var á leiðinni í skólann, hjólandi.

Eldri maður sat við stýrið. Hann sá mig ekki fyrr en það var of seint og steig óvart á bensíngjöfina í stað þess að stíga á bremsuna. Ég tel mig heppna þar sem óhappið gerðist nálægt háskólasjúkrahúsi og voru hjúkrunarfræðingar mættir á svæðið innan örfárra mínútna en það tók tvo sjúkrabíla heilar sjö mínútur að sækja mig, sem mér finnst heldur skondið.“ Hún hlaut ýmis meiðsli, þar á meðal brot á sköflungi, slæmar tognanir, slit og ótal aðra áverka af völdum höggsins. 

Rosalie lagði áherslu á jákvæðni á bataferlinu.
Rosalie lagði áherslu á jákvæðni á bataferlinu. Ljósmynd/Aðsend

„Óhappið varð til þess að ég ákvað að endurhugsa hlutina. Ég fékk hálfgerða uppljómun og ákvað að nú væri rétti tíminn til að hætta að slóra og láta einn af stærstu draumum mínum verða að veruleika.

Ég ákvað að elta sköpunareðlið og gerast kvikmyndagerðakona,“ útskýrir Rosalie sem stundar nú diplómanám í kvikmyndagerð við Kvikmyndaskóla Íslands. „Ég er í óðaönn að undirbúa útskriftarverkefnið mitt og finn að ég er á réttum stað.“

„Alltaf verið leikhúsbarn“

„Ég elska vinnuna mína,“ segir Rosalie sem hefur staðið vaktina í forsal Borgarleikhússins síðastliðin misseri og gegnir í dag stöðu vaktstjóra. „Það eru algjör forréttindi að fá að vinna við það sem maður elskar og hvað þá á svona kraftmiklum, fjörugum og sögulegum vinnustað,“ útskýrir hún. 

Rosalie var snemma kynnt fyrir töfrum leikhússins. „Ég hef alltaf verið leikhúsbarn. Frá því að ég man eftir mér hef ég átt leikhúskort. Ég var án efa yngsti áhorfandinn á mörgum leiksýningum enda sat ég ófáar sýningar sem voru ekki beint ætlaðar börnum en það voru sýningar sem heilluðu mig hvað mest.“

Þumlar upp!
Þumlar upp! Ljósmynd/Aðsend

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að vinna í Borgarleikhúsinu?

„Ég sótti um í hálfgerðu gríni, nýflutt aftur til Íslands. Ég er menningarsinnuð og mikill leikhúsaðdáandi og því fannst mér alveg tilvalið að sækja um vinnu í leikhúsi, á stað þar sem mér líður best. Ég var kölluð á prufuvakt stuttu eftir að ég sótti um og er nú bara orðin vaktstjóri.

Í Borgarleikhúsinu er enginn dagur eins, endalaus ævintýri. Ég fæ svo mikinn innblástur og er alltaf að læra eitthvað nýtt. Starfið hefur gefið mér mikla lífsfyllingu. Ég mæti á hverja einustu vakt full tilhlökkunar.“

Ótal mörg eru verkefni vaktstjóra en Rosalie tæklar öll verkefni með látum og eintómri jákvæðni. 

„Mér finnst langskemmtilegast að taka á móti leikhúsgestum og bjóða þá velkomna. Ég reyni að taka örsamtöl við gesti á meðan ég skanna leikhúsmiðana þeirra, það gefur mér aukna orku þar sem ég þarf að vera tilbúin í alls konar, en annars eru öll verkefnin skemmtileg. Ég fæ alltaf smá fiðring í magann þegar sýningu lýkur og ég opna salardyrnar. Það er gaman að heyra fagnaðarlætin og fylgjast með leikurum hneigja sig að lokinni sýningu.“ 

Langar þig til þess að leika?

„Þegar stórt er spurt. Ég hef alltaf verið hugmyndarík og uppátækjasöm, skapað marga karaktera. Í mörg ár hélt ég sýningar í stofunni fyrir mömmu mína og systur. Ég lék, dansaði og söng af mikilli innlifun heima við en hef ekki fært mig yfir á stóra sviðið, allavega ekki enn þá. 

Rosalie er mikill skemmtikraftur í sér. Hér sést hún flytja …
Rosalie er mikill skemmtikraftur í sér. Hér sést hún flytja atriði ásamt systur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Það er mikill skemmtikraftur í mér og ég hef oft verið spurð af fólki víðs vegar um heim hvort ég sé að læra leiklist, enda líflegur persónuleiki. Leiklistin heillar, hún er draumur sem er búinn að gerjast í kollinum á mér frá barnæsku.“

„Einstök tilfinning að sjá mig á auglýsingaskiltum“

Rosalie eyðir talsverðum tíma á bak við tökuvélina sem kvikmyndagerðakona. Hún ákvað að stíga út fyrir þægindarammann þegar henni bauðst skemmtilegt tækifæri til að taka þátt í auglýsingaherferð á vegum Hagkaup. 

„Þetta var ótrúlega mögnuð reynsla og mér leið vel fyrir framan myndavélina, sem ég átti ekki endilega von á. Ég er mjög þakklát og ánægð að hafa tekið þátt í þessu verkefni. 

Aðspurð segist hún hafa fengið góð viðbrögð frá fólki við …
Aðspurð segist hún hafa fengið góð viðbrögð frá fólki við auglýsingamyndunum. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú reynslu af módelstörfum?

„Nei, ég get nú ekki sagt það. Ég hef tekið þátt í örfáum skólaverkefnum og öðrum minni verkefnum, þó engu í líkingu við þetta. 

Aðspurð segir hún það skrýtið og skemmtilegt að sjá sig á auglýsingaskiltum víðs vegar um bæinn. 

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá er þetta áhugaverður hliðarveruleiki. Við lifum í heimi þar sem viðhorf fólks er oft og tíðum litað af ákveðinni steríótýpu. Fólk er einnig óhrætt við að dæma þá sem falla ekki í mótið. Ég var með það á bak við eyrað þegar ég steig fyrir framan myndavélina en ég ákvað bara að gera þetta og hafa gaman af, enda mjög sérstakt fyrir litlu Rosalie. 

Ég sá þetta sem einstakt tækifæri til að gefa raunhæfa mynd af íslensku samfélagi í dag. Húðliturinn minn og hártýpa eiga heima á auglýsingaskiltum, fjölbreytni er falleg og mikilvæg. Ég vona innilega að þetta veiti einhverjum innblástur,“ útskýrir hún. 

Rosalie bjó til ljósmyndaseríu um rasisma á Íslandi ásamt vinkonu …
Rosalie bjó til ljósmyndaseríu um rasisma á Íslandi ásamt vinkonu sinni. Vinkonurnar vonast til að halda ljósmyndasýningu og opna augu landsmanna fyrir fjölbreytni og fegurð. Ljósmynd/Aðsend

„Ég forðast neikvætt fólk“

Rosalie lítur raunsæjum augum á lífið og tilveruna. Hún forðast neikvætt fólk, kýs að líta á björtu hliðarnar á lífinu og klæðast litum. 

„Það sem þú sendir frá þér hefur áhrif. Ég reyni að forðast fólk sem dregur aðra niður. Ég hef engan tíma fyrir fólk sem vill þagga niður í mér eða öðrum,“ segir hún. 

„Ég var ung að aldri þegar ég lærði að við erum öll ólík og að allir henti ekki öllum, maður ber samt sem áður virðingu fyrir því fólki,“ segir Rosalie sem er dugleg að standa með þeim ákvörðunum sem hún tekur. 

Rosalie elskar liti.
Rosalie elskar liti. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fagna lífinu á alls kyns ólíka vegu og forðast helst svört föt. Ég elska liti og á betri daga þegar ég klæðist litum.“

Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?

„Ég á mér margar fyrirmyndir en sú manneskja sem hefur haft hvað mest áhrif á líf mitt er mamma mín. Hún gaf mér líf. Mamma er afl. Hún er ótrúleg kona sem hefur afrekað margt. Ég er óendanlega þakklát fyrir hana, systur mína og allar hinar mögnuðu konurnar sem hafa haldið utan um mig allt mitt líf. 

Móðir Rosalie er hennar helsta fyrirmynd.
Móðir Rosalie er hennar helsta fyrirmynd. Ljósmynd/Aðsend

Ég verð líka að fá að nefna Shondu Rhimes, en hún kollvelti Hollywood. Hún þorði að taka pláss í þessum valdamikla bransa og gerði það á tímum þegar fáar svartar konur voru með rödd og vald á bak við tökuvélina. Hún hefur unnið sig upp á aðdáunarverðan hátt.“

Hvað er næst á dagskrá?

„Ég ætla bara að sjá hvert lífið tekur mig,“ segir Rosalie sem útskrifast með diplómagráðu í kvikmyndagerð um næstu jól.

„Mig langar að gera svo margt. Heimurinn er fullur af forvitnilegum hlutum sem mig langar til að upplifa. Ég stefni á meistaranám erlendis en kannski enda ég bara á að fara í margra ára heimsreisu, kaupa mér eyju á Grikklandi eða læra að sigla. Það mun bara koma í ljós með tíð og tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál