„Árið 2000 kviknaði logi á milli okkar sem brennur enn“

Jóga Gnarr var 39 ára gömul þegar hún féll fyrir Jóni Gnarr forsetaframbjóðanda, grínista, fyrrverandi borgarstjóra og rithöfundi. Hann hafði reyndar vitað af henni síðan hann var unglingur. Jóga er sex árum eldri en hann og ein af sem setti snemma á lífsleiðinni svip á mannlífið. Þegar hún fór að vinna með fólki varð hún manneskjan á bak við tjöldin. Ein af þeim sem hún hefur unnið mikið með í gegnum tíðina er Björk Guðmundsdóttir. 

Hver er Jóga Gnarr? 

„Ég er fædd 11. júlí 1961 og ólst upp í Kópavogi, næstelst þriggja systkina. Pabbi minn var vélstjóri hjá Eimskip en mamma mín húsmóðir. Ég spilaði handbolta með HK og var virk í Leikfélagi Kópavogs og var sjálfboðaliði á Kópavogshæli þegar ég var yngri, sem gaf mér einstaklega mikið. Ég hóf minn starfsferil í tískubransanum, fyrst sem starfsmaður í Karnabæ og svo Flónni. Árið 1987 setti ég upp mína eigin fataverslun, Skaparann, sem rekin var á Laugavegi og Ingólfsstræti til ársins 1994. Ég er lærður nuddari og hef starfað við það frá 1994 og hef reglulega bætt við mig námi sem miðar að því að hlúa að fólki og hjálpa því til að geta verið besta útgáfan af sjálfu sér. Ég er til dæmis menntaður markþjálfi. Í gegnum árin hef ég unnið að margskonar verkefnum tengdum kvikmyndagerð í samstarfi við Jón, bæði við leikstjórn og framleiðslu,“ segir Jóga. 

Þegar hún er spurð að því hvar þau Jón hafi kynnst segir hún að það sé löng saga að segja frá því. 

„Jón sá mig fyrst árið 1982 þegar hann var 15 ára pönkari. Ég er sex árum eldri en hann, var 21 árs þarna og man ekki eftir þessu. Árið 2000 átti ég samlokusíma sem virkaði ekki alveg nægilega vel því ég gat bara svarað í hann. Ég sá aldrei sms-skilaboð sem komu í símann. Þegar við hittumst loksins kom í ljós að hann hafði ítrekað sent mér sms til að bjóða mér út að borða eða í bíó, en ég missti af öllum skilaboðunum frá honum. Þegar við hittumst var ég 39 ára og hafði aldrei búið með manni,“ segir Jóga sem bjó með syni sínum í vesturbæ Reykjavíkur en Jón var einstæður faðir með þrjú börn. Þegar þau voru búin að vera saman í fimm ár eignuðust þau saman eitt barn, soninn Jón Gnarr. Þá var Jóga 44 ára og Jón 38 ára. 

Jóga Gnarr, Jón Gnarr yngri, Jón Gnarr og Kamilla María …
Jóga Gnarr, Jón Gnarr yngri, Jón Gnarr og Kamilla María Gnarr árið 2014. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hvað var það sem vakti áhuga þinn? 

„Jón er einstaklega fallegur, kraftmikill og hugmyndaríkur maður og mjög velviljaður. Hann er hjálpsamur og skemmtilegur. Það sem heillaði mig einna mest við hann er hversu auðmjúkur hann er. Ég hafði aldrei hitt svona auðmjúkan mann,“ segir Jóga en hún hefur hitt marga gúrúa á andlega sviðinu í gegnum tíðina og segir að enginn þeirra hafi verið eins auðmjúkur og Jón.

„Hann er fæddur með þetta meðan aðrir þurfa að hamast til þess að vinna fyrir því,“ segir Jóga. 

Jón Gnarr og Jóga Gnarr með barnabörnin.
Jón Gnarr og Jóga Gnarr með barnabörnin.

Var þetta ást við fyrstu sýn?   

„Já. Árið 2000 kviknaði logi á milli okkar sem brennur enn. Ég er sex árum eldri en Jón og við höfðum verið kunningjar áður en við fórum að hittast fyrir alvöru. Eftir að við fórum út að borða og horfðum á bíómynd saman þá kiknaði ég í hnjánum. Það var þá sem ég vissi að við gætum orðið eitthvað. Við fyrsta neista var ekki aftur snúið. Þetta hafði langan aðdraganda og ég vissi lítið um hann. Ég vissi til dæmis ekki hvað Tvíhöfði var,“ segir hún og brosir.  

Hafið þið sama húmorinn?

„Já, við höfum það. Mér finnst ekkert fyndið nema það sé hlýja og auðmýkt fyrir viðfangsefninu. Þegar eitthvað kemur upp á þá segir Jón oft: „Við hlæjum að þessu einn daginn“. Við eigum mikið minningum og skemmtilegum uppákomum sem féll í misgrýttan jarðveg þegar hann átti sér stað,“ segir hún en fer ekki dýpra í þá sálma. 

Manstu fyrstu gjafirnar sem þið gáfuð hvort öðru? 

„Eftir ferð til Vestmannaeyja kom Jón til baka með eyrnalokka úr lundalöppum sem hann gaf mér. Mér fannst það ótrúlega fyndin og falleg gjöf en samt ekki alveg minn stíll. En svona er hann Jón minn nú oft sérstakur og opinn fyrir nýjungum. Ég var dugleg að gefa honum falleg föt og klæddi hann upp,“ segir hún. 

Hvað einkennir líf ykkar saman? 

„Það sem einkennir samband okkar er hvað við erum samstíga og góðir vinir. Samband okkar byggir á virðingu og trausti. Við grínumst oft með það að við séum bæði með sirkus eðli og finnst gaman að sjá lífið með þeim augum, sem sirkus sem tekur sífelldum breytingum og ferðast um í flokkum.“ 

Hvað finnst ykkur skemmtilegast að gera saman? 

„Við höfum mikla ánægju af því að ferðast bæði innan lands sem utan og hitta og kynnast áhugaverðu fólki. Við höfum líka einstaka ánægju af því að vinna saman að allskonar verkefnum. Þegar ég varð fertug bauð Jón mér til Azores-eyja sem var eftirminnilegt. Eftir að Jón skilaði borgarlyklunum fórum við til Costa Rica þar sem við dvöldum í mánuð á regntímabili. Það var himneskt. Við fórum til Úkraínu eftir að Volodymyr Zelenskyy var kosinn forseti landsins en fyrirmynd stjórnmálaflokks hans var að fyrirmynd Besta flokksins. Í þessari heimsókn hittum við hann, eiginkonu hans og allan flokkinn og það var mikil upplifun. Hann hefur staðið sig vel þrátt fyrir erfið verkefni. Annars finnst okkur Jóni mjög gaman að hitta allskonar fólk. Sirkusfólk eins og ég vil kalla það. Svona fólk sem tilheyrir sjálfu sér en er ekki einhversstaðar til þess að passa inn. Sirkusfólk er fólk sem vill búa eitthvað til sem skiptir máli. Það vill breyta samfélaginu sínu og stendur með lýðræðinu,“ segir Jóga.  

Lýstu fullkomnu kvöldi? 

„Okkur finnst mjög gaman að fara út að borða eða elda saman góðan mat og láta svo hugann reika og tala saman um heima og geyma, drauma og framtíðaráform,“ segir Jóga. 

Hvað borðið þið á svona kvöldum?

„Jón vill kjöt, helst lambahrygg eða steikur. Eitthvað mjög þungt með súrkáli,“ segir Jóga og skellihlær. 

Hér má hlusta á lagið lagið sem Björk samdi um Jógu: 

Jón Gnarr og Jóga Gnarr.
Jón Gnarr og Jóga Gnarr. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Jón og Jóga Gnarr árið 2017.
Jón og Jóga Gnarr árið 2017. mbl.is/Eggert
Jón Gnarr og Jóga með eldri borgurum sem fóru með …
Jón Gnarr og Jóga með eldri borgurum sem fóru með hlutverk í Borgarstjóranum. Ég var að leika.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál