Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur prófað ýmislegt þegar kemur að líkamsrækt. Hann segist baða sig reglulega til að líta betur út.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
„Ég hef prófað ýmislegt í þeim efnum undanfarin ár og finnst allt í lagi að breyta reglulega til. Ég hef lyft lóðum, æft með einkaþjálfara, stundað útihlaup, farið í rope-yoga og á sumrin reyni að komast sem oftast í golf.“
Á hvaða tíma dags æfir þú?
„Undanfarnar vikur hef ég farið þrisvar sinnum í viku út að hlaupa með nokkrum vinum mínum kl. 6.45. Við hlaupum 5-6 km, tökum nokkrar léttar æfingar og förum svo í heitu pottana. Þetta gjörbreytir deginum.“
Ertu hættur að borða eitthvað sem þú borðaðir áður?
„Það er fátt sem ég borða aldrei en mataræðið hefur breyst mikið undanfarin ár. Ég borða mun meira af grænmeti og ávöxtum en ég gerði áður. Ég laga mér heilsusafa heima oft í viku og reyni að forðast brauð og sykraðar vörur þó ég elski ekkert meira en dökkt súkkulaði.“
Hvað borðar þú þegar þú vilt dekra við þig?
„Góð máltíð er miklu meira en bara maturinn sem er á diskinum. Það þarf að hafa góðan tíma og fjölskylduna eða góða vini með sér. Ekkert stenst vel eldað íslenskt hráefni. Ég myndi segja að hámarksdekur væri grillaður nýveiddur silungur á heiðskírum sumardegi, snæddur úti við, í góðum hópi með útsýni yfir spegilslétt Þingvallavatnið. Best að enda á súkkulaðiköku og sterkum espresso.“
Hvað gerir þú til að líta betur út?
„Baða mig reglulega og læt snyrta á mér hárið. Í alvöru talað er það nú ekki margt fleira, fyrir utan að hugsa aðeins um mataræðið og stunda hreyfingu.“
Ódýrasta fegrunarleyndarmálið?
„Að vera jákvæður. Það sést langar leiðir þegar fólk er fúlt og í vondu skapi. Ég er svo heppinn að vakna alltaf með bros á vör og þarf ekki að leggja mikið á mig í þessum efnum.“
Notar þú snyrtivörur?
„Það sem ég er með af slíku í snyrtitöskunni tengist rakstrinum og svo rakakrem fyrir andlitið. Eitthvað verður maður svo að setja í hárið svo það sé ekki úti um allt.“
Hvað finnst þér um fegrunaraðgerðir?
„Mér finnst svona almennt að fólk verði að fá að lifa lífinu eins og það vill. Út frá því sjónarhorni finnst mér svo sem ekkert sérstakt um þær. Hins vegar virðist mér sem mikill meirihluti slíkra aðgerða hafi með eitthvað allt annað en útlitið að gera hjá viðkomandi. Það er því erfitt að verjast því að verða dapur fyrir hönd viðkomandi í slíkum tilfellum.“
Þekkir þú einhverja manneskju sem hugsar ekki um útlitið?
„Ef það er skilgreiningaratriði að viðkomandi líti aldrei í spegil er svarið nei, ég þekki engan sem lítur ekki í spegil. En vissulega gera sumir það mun oftar en aðrir.“