Það er kannski ekkert skrýtið að hertogaynjan af Cambridge, Katrín Middleton, sé „lekker“ til fara því hún hefur eytt tæplega sjö milljónum íslenskra króna í vinnuföt. Þetta kemur fram í Daily Mail.
Hertogaynjan gekk að eiga Vilhjálm prins fyrir rúmlega ári og varð þá fullgildur meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar. Heimspressan hefur fylgt henni eftir hvert fótmál og hefur fatasmekkur hennar verið dásamaður. Erlenda pressan hefur heldur ekki þreyst á því að segja frá því ef hún hefur mætt tvisvar í sama dressinu.
Nú hefur ársreikningur konungsfjölskyldunnar verið opnaður og þá kemur í ljós að hertogaynjan er ekki svona ógurlega nýtin og sparsöm eins og haldið var fram.
Hún gifti sig í Alexander McQueen-brúðarkjól og hefur verið dugleg að blanda ódýrum merkjum við dýrari. Hún hefur meira að segja mætt í kjólum frá sænska móðurskipinu H&M og hefur það þótt merki um að hún kunni að fara með peninga. Þegar allt safnast saman er víst ekkert ókeypis í þessum heimi.