Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, hönnuður og framkvæmdastjóri Gyðju Collection, færði Þóru Arnórsdóttur fyrsta skóparið í nýrri línu í Elliðaárdalnum á sunnudaginn. Auk þess gaf hún Þóru nýtt veski úr línunni. Skóparið sem Þóra fékk að gjöf heitir Freyja og er það úr íslensku laxaroði sem er sútað á umhverfisvænan hátt.
„Þóra Arnórsdóttir er mér mikil fyrirmynd og ég dáist að dugnaði hennar og hugrekki. Ég tel það afar mikilvægt fyrir ungar konur að geta horft upp til kvenna sem eru óhræddar við að sameina frama og einkalíf með því að gefa kost á sér í ábyrgðarstöður í samfélaginu á barneignaraldri. Það var því alveg tilvalið að færa Þóru, sem er óhrædd við að ryðja brautir fyrir komandi kynslóðir kvenna, fyrsta skóparið úr nýju línu Gyðju,“ segir Sigrún Lilja.
Sigrún Lilja segir að haustlínan frá Gyðju sé stærsta línan hennar frá upphafi. „Ég notast mikið við íslenskt roð í fylgihlutina frá Gyðju en allir skórnir eru úr ekta leðri og roði að innan sem utan. Fiskleður er bæði sterkt og meðfærilegt og hefur frá náttúrunnar hendi einstaka eiginleika og er unnið í Sjávarleðri á Sauðárkróki. Eingöngu er notast við umhverfisvæna og náttúrulega orku þegar roðið er sútað og því er þetta einnig vistvænt hráefni sem er mjög mikill kostur. Framleiðslan á fylgihlutunum okkar fer fram í Tyrklandi og eru allar vörurnar handunnar og eru gæðin því höfð í fyrirrúmi þegar hver einasti skór er búinn til. Töskurnar, beltin og skórnir eru svo skreytt með hinum einstöku Swarvoski-kristöllum,“ segir Sigrún Lilja.