Gráir tónar verða áberandi í haustförðuninni og koma augnblýantar afar sterkir inn. Augnblýanturinn Le Crayon Yeux no. 69 frá Chanel er mjúkur og góður. Hann rammar augnumgjörðina inn á þokkafullan hátt en mýktin í honum gerir að verkum að það er einnig hægt að nota hann sem augnskugga.
Blýanturinn er grásanseraður og gefur afar fallega áferð á augnlokið. Hann glitrar örlítið án þess að glitið verði of mikið á einhvern hátt. Þær sem vilja ganga hægt um gleðinnar dyr ættu að setja blýantinn inn í augnkrókinn, allan hringinn og líka uppi. Þær sem vilja hins vegar ganga örlítið lengra geta málað augnlokið með blýantinum og farið svo létt yfir það með augnskuggabursta.
Þegar búið er að bera augnblýantinn á sig er nauðsynlegt að setja mikinn maskara á augnhárin, bæði uppi og niðri.