Bloggsíðan trendnet.is verður opnuð klukkan níu í kvöld. Þar sameinast allir helstu tískubloggarar landsins undir sama hatti ásamt tveimur nýjum bloggurum. Stíllinn spjallaði við krakkana og má sjá afraksturinn í nýjasta tölublaði Monitor en hér er hægt að sjá hvað Elísabet Gunnars hafði um málið að segja. Ásamt Elísabetu eru það Helgi Snær Ómarsson, Hildur Ragnars, Andrea Röfn Jónasdóttir, Erna Hrund Hermannsdóttir, Pattra Sriyanonge og Svana Lovísa Kristjánsdóttir sem sjá um síðuna.
Á trendnet.is er hægt að lesa blogg frá sjö mjög ólíkum bloggurum. Hver og einn hefur sitt sérsvið og gerir það lesefnið mun fjölbreyttara og skemmtilegra. Fimm af bloggurunum eru virkustu bloggarar landsins í dag og ættu margir að þekkja síðurnar þeirra. Þau fengu svo til liðs við sig ljósmyndara og módel sem bæði eru að blogga í fyrsta sinn, en þau hafa verið að gera mjög skemmtilega hluti á sínum sviðum. Hópurinn lofar mikilli virkni og verður hægt að fylgjast með síðunni á facebook, twitter og instagram.
Hver er Elísabet Gunnarsdóttir?
25 ára viðskiptafræðinemi sem í næstu viku flytur frá Svíþjóð til Frakklands ásamt fjölskyldunni til að takast á við ný ævintýri sem handboltafrú. Síðustu árin hef ég haldið mig í sænskum verslunum Íslendingum til halds og trausts sem persónulegur stílisti ásamt því að halda úti bloggi og verslun.
Hvert er þitt sérsvið?
Ég er með puttann á púlsinum varðandi hvað er til hverju sinni í búðunum og reyni að deila því með lesendum. Ég reyni líka að vera ég sjálf og persónuleg og hef trú á að lesendur kunni að meta það.
Hver myndir þú segja að væri þinn markhópur?
Síðustu árin hef ég eignast tryggan lesendahóp. Hann spannar frá 13 ára forvitnum „fashionistum“ til miðaldra mæðra – ég myndi því segja að hann væri mjög breiður og mér þykir mjög vænt um það.
Hvert sækirðu helst innblástur?
Til fólks.
Ert þú með sérstakt hlutverk á síðunni?
Ætli mitt hlutverk sem bloggari á Trendneti sé ekki að halda mínu striki í skrifum og leyfa lesendum að fylgjast með hvað drífur á daga mína í nýju landi. Ég pósta persónulegum pósti í bland við innblástur frá tískurisum, tímaritum og verslunum. Sitt lítið af hverju.
Áttu þér sjálf uppáhaldsbloggsíðu?
Ég á nokkrar uppáhalds sem ég heimsæki reglulega með morgunkaffinu. Elin Kling, Amlul og Columbine eru þær sem ég hef fylgst lengst með.
Hvers vegna ætti fólk að kíkja inn á síðuna?
Af því að það er svo hjartanlega velkomið. Ég veit líka að ef það lítur inn einu sinni þá lítur það inn aftur og aftur og aftur …