Töffarinn Bubbi Morthens skammast sín ekki fyrir að vera dálítið hégómlegur. Í nýjasta pistli sínum skrifar hann um að hégóminn sé harður húsbóndi og játar að hann sé byrjaður að nota hrukkustraujárnið frá Nu Skin. „Dag einn þegar ég kom heim sátu tvær konur við eldhúsborðið að tala við Hrafnhildi. Þær voru bókstaflega alveg uppljómaðar að ræða leyndardóma fegurðarinnar og allskonar krem og dót sem konur nota til þess að líta betur út. Ég hugsaði með mér að ástin mín þurfi ekki á neinum kremum eða dóti að halda,“ segir Bubbi en játar að tækið hafi vakið forvitni hans þegar hann heyrði að Simon Cowell notaði það.
Hrukkustraujárnið hefur notið mikilla vinsælda enda er það náttúruleg leið í baráttunni við hrukkurnar. Sérstök gel frá Nu Skin eru borin á andlitið og er Galvanic Spa-tækinu, sem oftast er kallað hrukkustraujárnið, rennt yfir andlitið í ákveðinn tíma. Fyrst er farið yfir andlitið með hreinsigeli og svo er virka gelið borið á andlitið. Meðferðin tekur í kringum 10 mínútur allt í allt.
Bubbi segist strax vera farinn að sjá örlítinn mun eftir nokkur skipti.
„Nú er ég búin að prufa þetta í nokkur skipti. Ég stend fyrir framan spegilinn og reyni að sjá breytingu og eitt augnablik finnst mér ég sjá þó nokkurn mun, hrukkur eru grynnri en fatta svo að þetta getur varla verið eftir svona fá skipti en eftir nokkrar straujanir í viðbót ætti ég að sjá rosa mun eða hvað,“ segir hann.
Bubbi er ekki eina stjarnan sem notað hefur straujárnið því það er ákaflega vinsælt í Hollywood. Angelina Jolie notar það en það gerir líka Nicole Kidman.