Myndir sem teknar voru af Russell Crowe við frumsýningu Les Miserables í London 5. desember þykja sýna að leikarinn gengur í gegnum erfiða tíma.
Leikarinn þótti þreytulegur á að líta og þá vakti talsverða athygli að Crowe er búinn að láta skera hár sitt og skegg. Hann var nánast burstaklipptur og alveg skegglaus. Hin nýja klipping hefur sennilega átt sinn þátt í að eftir útliti hans var tekið, enda engin hár til staðar til að fela ummerki síðustu mánaða.
Crowe brosti þó framan í myndavélarnar þótt fjölmiðlar vestanhafs létu þess getið að það væri sem leikarinn hefði elst um mörg ár síðustu mánuði.
Leikarinn dvaldi á Íslandi í sumar við tökur á myndinni Noah en þá hámaði hann í sig íslenskt skyr og hjólaði meðal annars frá Reykjavík til Grindavíkur á milli þess sem hann æfði stíft í Mjölni. Crowe skildi við eiginkonu sína, Danielle Spencer, í október og í framhaldinu var sagt frá því í fjölmiðlum að hann hefði átt í ástarsambandi við íslenska stúlku meðan hann dvaldi hérlendis.
Miðað við hvað hann blómstraði á Íslandi í sumar er ljóst að Crowe þarf að fá meira íslenskt skyr og anda að sér fersku lofti, spila meira á Kexinu og í Hörpu og njóta þess að vera til.