Fatahönnuðurinn Helga Lilja er eigandi fatamerkisins Helicopter sem fæst meðal annars í versluninni Kiosk. Helga kveðst hafa litríkan fatastíl en hún er hrifnust af hvíta litnum þessa dagana.
Getur þú lýst þínum fatastíl? Afslappaður og oft á tíðum frekar litríkur. Ég á það til að festast í sömu þremur samsetningunum og sjá ekki neitt annað inni í skápnum mínum.
Fyrir hverju fellur þú yfirleitt fyrir? Grængulum peysum.
Hvað er nauðsynlegt að eiga í fataskápnum sínum? Góðan grunn. Svartar þröngar gallabuxur, hinn fullkomna stuttermabol og svo fullt af munstruðum flíkum til að lífga upp á tilveruna.
Hvaða mistök gera konur í klæðaburði? Að loka augunum fyrir kostum sínum og einblína aðeins á gallana, með því hugarfari gleymist að ýta undir kvenleikann.
Hvað dreymir þig um að eignast? Nýtt og sjúklega fínt seðlaveski.
Hver er dýrasta flíkin í fataskápnum þínum? Geðveiki leðurkjóllinn frá Helicopter sem kemur í haust ... en hann er svo þess virði!
Hvað vantar í fataskápinn þinn? Fullkomnar svartar gallabuxur.
Hver er best klædda kona í heimi? Það er ekki til nein ein best klædda kona í heimi að mínu mati. En mér finnst Taylor Tomasi Hill alltaf mjög flott í tauinu.
Í hvað myndir þú aldrei fara? Táslusokka!
Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum? Ég grisja hann svo reglulega þannig að ég ætla rétt að vona ekki!
Hvað finnst þér mest heillandi í vor-og sumartískunni? Hvítur litur.
Ef þú myndir vinna milljón í Happdrætti DAS, hvað myndir þú kaupa þér? Sjúklega fínt nýtt leðurveski og óeðlilegt magn af parmesan ost.