Flestar konur dreymir um að hitta þann eina rétta, manninn sem passar í öll hólfin. Í raunveruleikanum er það í fæstum tilfellum þannig enda hafa flestir jafnmarga kosti og galla.
Á meðan sum persónueinkenni geta gert út af við sambandið eru sumir hlutir í fari kærastans sem hægt er að laga og breyta. Breski vefmiðillinn Daily Mail greinir frá því að í nýlegri könnun hafi komið í ljós að tvær af hverjum þremur konum hafi markvisst hent fötum úr fataskáp kærastanna því þeim fannst þeir ekki nógu smart.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að hin almenna breska kona viðurkenndi að það tæki 192 daga í sambandinu að breyta betri helmingnum í hinn „fullkomna mann.“
Aðspurðar af hverju þær vildu breyta mönnunum sínum, sögðu 36 prósent kvennanna að þær hefðu skammast sín fyrir kærasta sína og vildu helst ekki sjást opinberlega með þeim á fyrstu stefnumótunum.
Þrjátíu og sex prósent kvennanna sögðu að fatastíllinn hefði verið hallærislegur, 22 prósent sögðu að hárgreiðslan hefði verið glötuð og sumar sögðu eða 9 prósent að lyktin af viðkomandi hefði verið ástæðan fyrir því að þær hefðu verið tregar til að sjást með mönnunum.
Til þess að komast nær því að vilja sjást með kærustunum viðurkenndu 48 prósent kvennanna að þær keyptu föt fyrir maka sinn til þess að bæta útlit þeirra. Meðalkonan keypti um 21 flík á ári til að flikka upp á karlinn og eyddi um 100 þúsund krónum í verkefnið.
Þegar kemur að því að stílisera kærastann þá var fyrrverandi fótboltamaðurinn David Beckham notaður sem viðmið. Hann var kosinn flottasti frægi karlmaðurinn sem konur reyna að láta kærasta sína líkjast.
Sálfræðingurinn Simon Moore sagði að konur óttuðust samkeppni frá öðrum ef þær byrjuðu með karlmönnum sem væru fullkomnir. Í staðinn velja þær sér maka sem hægt er að betrumbæta og gera að hinum fullkomna manni - fyrir sig.
„Áhugavert er að sjá að tvær konur af hverjum þremur laðast að karlmönnum sem þær síðan vilja breyta eftir að þær byrja í sambandi með þeim. Það sýnir okkur að við setjum okkur ákveðna staðla og við gerum ákveðnar kröfur er við erum í sambandi,“ sagði Fjölmiðlafulltrúi Littlewoods.com sem hélt úti könnuninni sem 2.000 konur tóku þátt í.