Sveinn Andri Sveinsson, María Sigrún Hilmarsdóttir, Ragnhildur Steinunn og Einar Bárðarson eru meðal þjóðþekktra einstaklinga sem fluttu á árinu.
Sjónvarpsstjarnan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Haukur Ingi Guðnason settu íbúð sína við Marargötu í Reykjavík á sölu. Íbúðin er afar glæsileg og seldist fljótt enda smekklega innréttuð með hryllilega smart fiskibeinaparketi. Ragnhildur Steinunn og fjölskylda flutti í einbýli í Vesturbænum. Stækkandi fjölskylda þurfti stærra húsnæði.
Ómar Ragnarsson flutti af Háaleitisbraut að Eirborgum. Hann vildi samt alls ekki meina að hann væri kominn í þjónustuíbúð þótt íbúðin sé skilgreind sem öryggisíbúð á vefsíðu Eirar.
Fréttakonan María Sigrún Hilmarsdóttir og Pétur Árni Jónsson, eigandi Viðskiptablaðsins, settu hæð sína við Kvisthaga á sölu. Hæðin er 131 fm að stærð og flutti í glæsiíbúð við Ægisíðu sem Smartland Mörtu Maríu fjallaði um.
Skúli Gunnar Sigfússon, oftast kenndur við samlokustaðinn Subway, setti glæsihús sitt við Laufásveg á sölu. Húsið var allt tekið í gegn á mjög smekklegan hátt þar sem vandaðar innréttingar eru í forgrunni.
Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson og eiginkona hans, Sigurjóna Sverrisdóttur, settu penthouse-íbúð sína í Garðabæ á sölu. Íbúðin er einstaklega vel heppnuð og með frábæru útsýni. Forláta sérsmíðaður stigi er í íbúðinni og er ásett verð 67 milljónir.
Halldóra Geirharðsdóttir setti hús sitt við Skeljanes 2 á sölu. Húsið er sannkallað ævintýrahús, á þremur hæðum. Upphaflega var um þrjár eignir að ræða en í dag er þetta aðalhæð og ris og aukaíbúð í kjallaranum. Samtals er fermetrafjöldinn 244. Smartland Mörtu Maríu hefur heimildir fyrir því að húsið sé ennþá óselt og Halldóra búi ennþá þar ásamt fjölskyldu sinni.
Róbert Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands var skipaður dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í sumar og í framhaldinu setti hann íbúð sína við Sólheima á sölu.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar setti íbúð sína við Nesveg á sölu. Margoft hafa birst myndir af íbúðinni í íslenskum hönnunarsjónvarpsþáttum og hönnunarblöðum en Guðmundur býr þar ásamt eiginkonu sinni, Alexíu Björgu Jóhannesdóttur leikkonu. Húsið var byggt 1955 og er íbúðin með svölum sem snúa í suður. Í eldhúsinu er upprunaleg innrétting í anda sjötta áratugarins. Innréttingin er hvítlökkuð og afar Mad Men-leg. Fjölskyldan flutti í einbýli við Faxaskjól í Reykjavík.
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður flutti líka á árinu. Hann flutti þó ekki prívat og persónulega heldur breytti um vinnuaðstöðu. Hann fór af Lögfræðistofu Reykjavíkur yfir á Túngötu 6 sem er líklega frægast fyrir að hafa hýst skrifstofur Baugs í góðærinu.
Einar Bárðarson og eiginkona hans, Áslaug Thelma Einarsdóttir, settu einbýlishús sitt í Reykjanesbæ á sölu. Einar var ráðinn forstöðumaður Höfuðborgarstofu í lok síðasta árs og mun hann flytja til borgarinnar ásamt fjölskyldu sinni á næstunni.
Hús Björns Inga Hrafnssonar ritstjóra Pressunnar og fyrrverandi eiginkonu hans við Hálsasel í Breiðholti var sett á sölu. Húsið sem er 284 fm að stærð er á þremur hæðum með afar sólríkum palli. Það var þó ekki Björn Ingi sjálfur sem seldi húsið heldur Arion banki.