Það var einu sinni þannig að það sem setti punktinn yfir i –ið þegar samkvæmisklæðnaðurinn var valinn voru hælarnir.
Meira að segja þótti það eilítið púkalegt að vera í lágbotna skóm við glæsilegan kvöldfatnað.
Svo virðist hins vegar sem að hælaskórnir séu á leiðinni í pásu, samkvæmt helstu tískuspekúlöntum.
Samkvæmt heimildum Daily Mail eru tískuskvísurnar Alexa Chung, Peaches Geldof og Kate Moss þær sem eiga hrós skilið fyrir að gera lágbotna skóna töff á ný, með því að klæðast þeim á rauða dreglinum, síðustu mánuði.
Einnig hafa fyrirsætur á tískupöllunum gengið um pallanna í lágbotna skóm, jafnvel íþróttaskóm.
Samkvæmt nýrri könnun kjósa konur að vera frekar í þægilegum skóm í stað þess að kveljast í hælaskóm.
Fyrr í þessum mánuði á Golden Globe - verðlaunahátíðinni, gekk leikkonan Emma Thompson á tásunum á sviðið og sagði: „Ég er komin úr hælunum og sendi frá mér femíníska yfirlýsingu í raun, af því að ég meina af hverju erum við í þessu? Það er svo sársaukafullt og tilgangslaust í raun.“
Thompson er ekki ein um þessa skoðun en meira en 75 prósent kvenna kjósa að vera í þægilegum skóm þegar kemur að skóbúnaði.
„Konur undir 35 ára eru tilbúnar að fórna sér fyrir tískuna,“ sagði Tamara Sender hjá Mintel fashion og bætti við: „Konur sem eru hins vegar 55 ára og eldri vilja frekar ganga í skóm sem eru þægilegir og passa.“
Mögulega eru karlmennirnir að fara taka við, en eins og fram kom á mbl.is fyrir skömmu þá sáust karlfyrirsætur ganga í hælaskóm á tískupöllum í Lundúnum.