Það er alltaf ákveðin áhætta sem fylgir því að kaupa föt á netinu, þau gætu verið of stór, of lítil, úr skrýtnu efni eða jafnvel ljót í sniðinu. Kínversk kona fékk að kynnast því hvernig er að kaupa flík á netinu sem lítur alls ekki út eins og myndir á vefverslun gefa til kynna.
Svartur síðkjóll sem sýnir mikið hold varð fyrir valinu hjá konunni. Kjólinn keypti hún á vefversluninni Taobao. Konunni leist vel á myndirnar af kjólnum en ekki eins vel á kjólinn sjálfan þegar hann komst til skila.
Konan var afar vonsvikin þegar hún fékk kjólinn í hendurnar. Henni fannst kjóllinn vera ljótur í sniðinu og sýna of mikið hold. Hún tók myndir af sér og birti á samfélagsmiðlum svo að fólk gæti borið þær saman við myndirnar af Taobao. Henni fannst hún illa svikin. Daily Mail fjallaði um málið og birti ljósmyndirnar.
Myndirnar eru frekar kómískar enda er konan ekki að setja sig í neinar sérstakar stellingar fyrir myndatökuna. Þá eru hún einnig klædd í skærbleika inniskó sem setja enn skemmtilegri svip á „lúkkið“. Það er ótrúlegt að konan hafi haldið að kjóllinn gæti verið klæðilegur.