Nýja verslunar- og veitingasvæðið opnaði formlega á föstudaginn í Leifsstöð. Ingibjörg Gréta Gísladóttir framleiddi glæsilega tískusýningu í tilefni dagsins þar sem íslensk hönnun mætti erlendri. Það kom þó upp eitt vandamál því velja þurfti sýningarfötin á síðustu stundu því ferðamenn ryksuga úr hillum verslunarinnar.
„Það er ekki á hverjum degi sem þetta stór tískusýning er á Íslandi og hvað þá á flugvelli. Tískusýningin var einnig óvenjuleg að því leyti að við þurfum að velja fatnaðinn á síðustu stundu því þeir ferðamenn sem fara um Keflavíkurflugvöll eru svo duglegir að versla,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir.
Hún segir jafnframt að það hafi þurft að panta inn aukafatnað í búðirnar svo hægt væri að tryggja að það væri til nóg fyrir sýninguna.
„Svona sýning er heilmikið fyrirtæki og er valinn maður í hverju rúmi, landslið fagfólks. Alda B, stílisti hjá Snyrtilegum klæðnaði sér um uppsetningu sýningarinnar, Fríða María förðunarfræðingur hannar mjúka og ferska förðun með rauðum, brons og gylltum tónum ásamt Estee Lauder teyminu og síðan mun Hermann frá Modus hársnyrtistofu toppa útlitið með sínu fólki.“
Þema sýningarinnar voru ferðalög og útivist og merkin 66°Norður, Farmers Market, Spaksmannsspjarir, Feldur, Boss og Max Mara voru meðal annars sýnd. „Þemað smellpassar við staðsetningu sýningarinnar enda þarft að hafa gott úrval af slíkum fatnaði á glæsilegri flugstöð eins og á Keflavíkurflugvelli.“