Nýjasta auglýsingin frá fatamerkinu Rag & Bone hefur reitt margt bílaáhugafólk til reiði. Í auglýsingunni má sjá fallega svarta Porche-bifreið frá árinu 1979 verða fyrir barðinu á stórum steypuklump.
Fyrirsætan Gabrielle Wilde er stjarna herferðarinnar. Hún hrekkur í kút við hávaðann sem myndast þegar steypuklumpurinn fellur á bílinn fallega.
Mörgum þykir sorglegt að sjá svona flottan bíl eyðilagðan í þágu tískunnar. Viðbrögðin við auglýsingunni leyna sér ekki á YouTube en þar hafa 6000 manns „mislíkað“ við auglýsinguna en aðeins um 90 manns hafa „líkað“ við hana.
„Skrímslin ykkar,“ skrifaði einn netverji undir auglýsinguna. „Hræðileg sóun á klassískum bíl. Ég óska ykkur alls hins versta,“ skrifaði annar.
Talsmaður Rag & Bone hefur nú stigið fram og greint frá því að bíllinn hafi ekki verið heill, að í hann hafi vantað vélina og að hann hafi verið keyptur á ruslahaug. Einhverjir eiga þó erfitt með að trúa því.
Bifreið af þessu tagi í góðu standi er að seljast á um 4,2 milljónir króna samkvæmt frétt The Telegraph.