Hin tvítuga Antonía Lárusdóttir er annar eigandi verslunarinnar Barkode. Í versluninni, sem hún rekur ásamt kærustu sinni, Öldu Kareni Hjaltalín, er lögð áhersla á „cruelty free“-vörur. Þær Antonía og Alda vilja ekki aðeins kynna fólk fyrir spennandi og fallegum vörum í gegnum verslun sína heldur láta þær gott af sér leiða á sama tíma þar sem prósenta af hverri sölu rennur til UN WOMEN.
Getur þú lýst þínum fatastíl? „Ég er algjör minimalisti og kaupi mikið af flíkum sem ég veit að endast vel, þessar tímalausu klassísku vörur. Ég er frekar lítil þannig að það er oft erfitt að finna eitthvað hérna á Íslandi sem passar vel. Þess vegna var ég mjög hörð á því að fá XS-stærðir inn í BARKODE strax frá byrjun. Það skiptir nefnilega mestu máli að manni líði vel í flíkunum sínum.“
Fyrir hverju fellur þú yfirleitt? „Ég fell alltaf fyrir franskri tísku. Hún er alltaf svo áreynslulaus og minimalísk. Frakkarnir eru gjörsamlega búnir að fullkomna lúkkið sem lætur þig líta út eins og þú hefðir ekkert fyrir því.“
Hvað er nauðsynlegt að eiga í fataskápnum sínum þessa stundina? „Hvítan blazer-jakka sem er hægt að nota bæði hversdags og í öllum fínu veislunum í sumar.“
Hver er nýjasta flíkin í fataskápnum þínum? „Það er akkúrat hvítur blazer sem ég keypti í París í vor.“
Hvað vantar í fataskápinn þinn? „Ég er að leita að hinum fullkomnu „mom jeans“, ég klippti einu bláu gallabuxurnar mínar í stuttbuxur fyrir Hróarskeldu-hátíðina í síðustu viku… ekki mín besta hugmynd. Ég vildi óska að það væri oftar stuttbuxnaveður á Íslandi!“
Er eitthvað sem þú myndir aldrei klæðast? „Ég myndi aldrei klæðast alvöru feldi eða alvöru leðri, skammast mín mikið fyrir að hafa gert það þegar ég var yngri. Síðan þá hef ég þroskast mikið og er ég orðin „vegan“ og búin að vera í tvö ár núna og hef ég ekki áhuga á að styðja pyntingu dýra í neinu formi.“
Áttu þér uppáhaldshönnuð? „Stella McCartney er án efa í uppáhaldi. Hennar gildi eru mjög í takt við mín.“
Hvernig handtösku dreymir þig um að eignast? „Mig dreymir um að eignast stóra Stella McCartney „tote“-tösku, langar í allar.“
Hvað finnst þér mest heillandi í vor-og sumartískunni? „Ég er mjög skotin í hvað allt er orðið rómantískt. Ljósir kremaðir litir og bleikir litir finnst mér mjög heillandi þetta sumar.“
Áttu þér tískufyrirmynd? „Amma mín hefur alltaf verið mín helsta tískufyrirmynd. Hún er mest smart kona sem ég hef séð. Hún er alltaf í tímalausum flíkum en hefur á sama tíma mjög einstakan stíl. Hún er líka smá hippi í sér sem mér finnst alltaf svolítið flott. Hún veit hvað hún syngur enda átti hún glæsilega tískuvöruverslun, „Jósefína“, í áratugi á Laugaveginum í denn!“
Hvað er á óskalistanum? „Flowy hvítur kjóll sem er fullkominn yfir gallabuxur. En við erum akkúrat loksins að fara að fá nokkra svoleiðis inn á barkode.is, ég get varla beðið!“
Að lokum bendir Antonía áhugasömum á að kíkja á Instagram-síðuna sína, @antonialar. Eins getur fólk fylgst með versluninni Barkode á Facebook, Instagram og Snapchat undir nafninu barkode.is.