Hertogaynjurnar Katrín og Meghan settu upp hatta á mánudag þegar þær mættu til messu í Westminister Abbey og fögnuðu Samveldinu ásamt Elísabetu drottningu og öðru fínu fólki í Bretlandi.
Meghan lét lítið fyrir sér fara í hvítu á meðan svilkona hennar Katrín fór ekki fram hjá neinum í eldrauðu. Katrín lét sér nægja að mæta í gömlum kjól og kápu frá Catherine Walker en Meghan sem er kasólétt klæddist nýjum kjól frá Victoriu Beckham.
Í svona samkomum er hattatískan ekki síður spennandi en kjólarnir. Meghan var með fallegan klassískan hatt í anda Jackie Kennedy. Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, gaf hertogaynjunum þó ekkert eftir í stíl og hattavali. Tók May sem er þekkt fyrir áhuga á tísku kannski meiri áhættu en hinar stilltu Meghan og Katrín.