Elísabet Englandsdrotting er ekki bara Englandsdrottning heldur má með sanni segja að hún sé líka drottning hatta. Drottningin hefur borið ýmsa hatta við ýmis tilefni og er hún alltaf með stílinn upp á tíu, þökk sé stílista hennar Angelu Kelly.
Þeim Elísabetu og Kelly hefur þó orðið á í messunni að minnsta kosti einu sinni. Kelly segir frá tilviki árið 2002 þar sem hennar hátign endaði á því að snúa hattinum öfugt því hann var svo ljótur.
Kelly hafði valið kórallitan kjól fyrir drottninguna og hatt í stíl ásamt hvítum skóm, hönskum og veski. Þegar hún hins vegar tók hattinn upp úr kassanum sá hún að hann var alveg skelfilegur.
„Um leið og ég hafði hann í höndunum sá ég að þessi hattur myndi ekki passa drottningunni. Hann var með eins konar skeljalaga börðum og mjög stóru blómi aftan á. Hann var áhugaverður og vel gerður, en ég fann það á mér að hann myndi ekki bæta neinu við útlit hennar hátignar,“ sagði Kelly.
Í stað þess að leyfa drottningunni að ganga um með hatt sem færi henni ekki vel ákvað hún að tilkynna henni að hatturinn væri ómögulegur. Að mati drottningarinnar var það heldur seint í rassinn gripið þegar Kelly tilkynnti henni að hatturinn myndi ekki ganga við kjólinn, enda var drottningin að byrja að hafa sig til.
„Ég sagði henni að ég hefði skoðað hattinn frá öllum sjónarhornum og það væri líklega best að hún sneri honum öfugt. Drottningin trúði því varla að þetta myndi virka. Ég sagði henni að ef hún tryði mér ekki skyldi hún spyrja hertogann af Edinborg, hann segir henni alltaf sannleikann,“ sagði Kelly.
Drottningin fór því og spurði Filippus prins hvort hatturinn væri betri ef hann sneri öfugt. „Hún fór og spurði hans hátign og eftir skemmtilegt samtal — þar sem ég ímynda mér að hertoginn hafi ekki haldið aftur af sér — ákvað drottningin að vera með hattinn öfugan eins og ég hafði lagt til,“ sagði Kelly.