Aldís Eva Kristjánsdóttir er stafrænn sérfræðingur hjá Kringlunni. Hún er vön því að undirbúa kaup sín vel á netinu en klárar oftast kaupin í versluninni sjálfri. Aldís Eva þekkir vel inn á netverslanir en hún stóð meðal annars að því að gera vörur Kringlunnar aðgengilegar á netinu.
„Ég á mjög erfitt með að setja fatastílinn minn í eitt box. Ég elska kjóla, ég klæðist kjól nánast daglega en ef þú sérð mig ekki í kjól þá er það „sporty spice“, í Nike frá toppi til táar,“ segir Aldís Eva þegar hún er beðin að lýsa fatastílnum sínum.
Í vinnunni klæðist Aldís Eva gjarnan buxum.
„Ég er í leðurbuxum eða gallabuxum alla daga og svo er það misjafnt hvort það sé kjóll eða blússa og fallegur jakki við.“
Aldís Eva vinnur töluvert heima eins og svo margir aðrir um þessar mundir og hefur sig til á hverjum degi.
„Mér finnst mjög mikilvægt að gera mig til þegar ég vinn heima. Ég mála mig og greiði en Nike-gallinn verður þó fyrir valinu í 90% tilvika í staðinn fyrir fínni fatnað. Það gerir bara svo mikið fyrir andlegu hliðina að gera sig til og taka göngutúr í hádeginu en ekki bara vera á náttfötunum allan daginn.
Ég er mikill vafrari á netinu, ég undirbý nánast öll kaup á netinu, það er bara svo þægilegt að vita hvort varan sé til og í þinni stærð. Kringlan.is er því algjörlega bjargvættur í þessum málum. Ég er í vinnunni að fara yfir nýjar vörur á Kringlan.is og finn þá alltaf eitthvað nýtt og spennandi sem fær mig til þess að vilja kíkja í ákveðnar verslanir, máta vöruna og klára kaupin þannig. Ég klára nánast aldrei kaup á netinu, ekki nema varan sé ekki til í minni stærð eða slíkt í verslun,“ segir Aldís Eva um kauhegðun sína.
Aldís Eva segir það fyrst og fremst þægilegt að versla á netinu. Það opnar líka augu fólks fyrir nýjum vörumerkjum þar sem margir eiga það til að fara alltaf inn í sömu búðirnar þegar þeir fara í Kringluna. Að koma Kringlunni á netið var þó ekki auðvelt verkefni.
„Í Kringlunni eru yfir 100 verslanir, með ólík birgðakerfi og á mjög svo misjöfnum stað. Tæknilausnin sem við erum að vinna með hefur gert okkur kleift að bjóða öllum verslunum í Kringlunni að vera með, hvort sem þau eru með netverslun eða ekki. Margar verslanir eru því að færa sig yfir á netið í fyrsta skipti og vinnum við þessi mál mjög náið með verslununum,“ segir Aldís Eva. Hún bendir á að vörurnar í netversluninni eru yfir 150 þúsund frá 75 verslunum og fer þeim sífellt fjölgandi.
„Ég á enga uppáhaldsbúð, ég á frekar uppáhaldsmerki. Ég elska töff strigaskó frá Calvin Klein sem Steinar Waage selur. Ég kaupi mikið af kjólum og skyrtum í versluninni MAIU, fatnaðurinn frá Ralph Lauren er alltaf í miklu uppáhaldi, hvort sem það er sparifatnaður eða kósígallinn en ég kaupi það í versluninni Mathildu. Svo má ekki gleyma íþróttafatnaðinum frá Nike sem ég kaupi hjá AIR og Útilífi að mestu.“
Haða flík er í mestu uppáhaldi hjá þér?
„Það er mjög erfitt að velja eina flík, en akkúrat núna myndi ég segja myntugræni Rosemunde-kjóllinn minn frá versluninni MAIU og Ralph Lauren-jakkinn minn frá Mathildu, hann gengur hreinlega við allt. Svo verð ég reyndar að nefna loðkragann minn frá Feld verkstæði, sem ég keypti hjá versluninni Geysi, ég treð honum við alla jakka og yfirhafnir.“
Bestu kaup sem þú hefur gert?
„Nýja Dyngju-dúnúlpan mín frá 66 Norður, mig langar hreinlega að búa í henni.“
Er eitthvað á óskalistanum fyrir haustið?
„Þegar það fer að kólna elska ég ekkert meira en töff peysur og kápur, helst með loðkraga, ég er mjög veik fyrir fallegum feldi. Annars erum við að gera miklar breytingar hér heima og því fylgja alls kyns fallegar gersemar inn á heimilið. Þegar það er búið ætla ég að fjárfesta í fölbleika matarstellinu sem var að koma frá Iittala,“ segir Aldís Eva.