Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, hefur verið fastagestur í stofum landsmanna síðustu dagana. Hún er ekki bara með allt sem tengist jarðskjálftum og mögulegu eldgosi á hreinu heldur er útlitið einnig upp á tíu.
Útlit Kristínar hefur breyst aðeins eftir að hún mætti í fyrstu beinu útsendinguna á RÚV í tengslum við skjálftahrinuna á Reykjanesskaga í síðustu viku. Um helgina var hún mætt með áberandi gleraugu úr gleraugnabúðinni Sjáðu. Gleraugun setja punktið inn yfir i-ið.
Anna Þóra Björnsdóttir, eigandi gleraugnaverslunarinnar Sjáðu, segir gleraugun vera frá gleraugnamerkinu Caroline Abram og heitir tegundin Uffie. Gleraugun hafa vakið mikla athygli og spyrja allir sem koma inn í verslun Önnu Þóru hvort gleraugu Kristínar séu úr búðinni.
„Þetta er stórglæsileg og klár kona. Það þurfti ekki mikið til þess að gera hana frábæra en hún varð enn þá flottari,“ segir Anna Þóra þegar hún er spurð út í hvað gleraugun gera fyrir Kristínu. „Hún er greinilega mikil fyrirmynd. Það hefur alveg rignt inn símtölunum.“
Anna Þóra segir að hún sé stundum kölluð gleraugnahvíslarinn og segir að fólk fari á næsta stig þegar það fær gleraugu frá Sjáðu sama hversu vel því hefur gengið í lífinu. Bæði heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra eiga gleraugu úr Sjáðu.