Varaþingmennirnir Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Lenya Rún Taha völdu sér báðar hvítan jakka fyrir fund á Alþingi í dag. Er þetta í fyrsta skipti sem þær báðar setjast á þing og hefur Lenya Rún lýst þingsetu þeirra Gunnhildar sem „gellu-takeover“ á Alþingi.
Lenya Rún klæddist hvítri stuttbuxnadragt í dag og paraði við hana svartan rúllukraga. Við stuttbuxnadragtina klæddist Lenya svörtum Dr. Martens-skóm. Gunnhildur Fríða valdi hvítan jakka, svartar buxur, ljósbrúnt vesti og hvíta fallega skyrtu við.
Gunnhildur og Lenya eru báðar varaþingmenn þingflokks Pírata. Gunnhildur er 19 ára og átta mánaða, fædd árið 2002, og því fyrsta manneskjan fædd á 21. öld til að taka sæti á Alþingi. Lenya Rún er nýorðin 22 ára.
Ef lesendur vilja endurskapa gellu-takeover Lenyu og Gunnhildar er af nægu að taka, til dæmis í versluninni Zöru í Smáralind.