Píratinn Björn Leví Gunnarsson er einn þeirra þingmanna sem fylgir ekki alltaf venjum um snyrtilegan klæðnað á Alþingi. Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók mynd af ónefndum manni í ósamstæðum sokkum í vikunni. Eggert ljóstraði því upp við Smartland að umræddur maður væri píratinn Björn Leví Gunnarsson.
Tilefni myndarinnar var umfjöllun um klæðnað þingmanna í Morgunblaðinu á fimmtudaginn. Rifjað er upp í greininni að árið 2020 hafi Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, gagnrýnt Björn Leví fyrir ekki bara það að vera á sokkaleistunum heldur líka í ósamstæðum sokkum.
„Veistu, ég verð bara að segja, virðulegi forseti, mér er algjörlega orðið misboðið að þessi háttvirti þingmaður sem kemur hér á sokkaleistunum upp í ræðupúlt, í sitthvorum sokknum, ítrekað, með pólitískt skítkast í rauninni og ekkert annað.“
Svo virðist sem Björn Leví sé enn að leita að leita að samstæðum sokkum fjórum árum seinna.
Björn Leví leggur greinilega ekki bara í vana sinn að ganga um Alþingi á sokkaleistunum. Heimildir Smartlands herma að hann hafi einnig sést í Hreyfingu á sokkaleistunum. Líklega er hann bara heitfengur. Hann hefur einmitt þá afsökun þegar hann var áminntur fyrir að mæta í skyrtu í ræðustól.