10 ráð til að tækla janúarljótuna

Oft langar mann helst ekkert út úr húsi eftir hátíðirnar, …
Oft langar mann helst ekkert út úr húsi eftir hátíðirnar, eins og vinkona okkar Bridget Jones hér.

Janúarljótan er ekkert lamb að leika sér við. Hvort sem við er að eiga líflaust hár eftir galagreiðslur áramótanna eða almenn þyngsli eftir hangikjöt og hamborgarhryggi jólanna þýðir ekkert að láta í minni pokann og ætla ekki út á meðal fólks. Hérna koma 10 ráð sem aðstoðað geta við að tækla slæma daga í janúar:

1. Rautt er málið
Hvort sem um ræðir klæðnað, varalit eða naglalakk - rautt er málið. Bæði er liturinn klassískur og fagur auk þess sem hann beinir athyglinni á ákveðna líkamshluta (og frá öðrum á meðan). Rautt ber vott um ákveðni og að þú kallir ekki allt ömmu þína. 

2. Beltin bjarga
Ok, maður er kannski ekki beint í stuði fyrir belti þegar maður er útbelgdur eftir jólasteikurnar. Beltin draga engu að síður fram kvenlegar línur okkar kvenna, sem er af hinu góða í janúar. Mittið höfum við frá náttúrunnar hendi - og eigum því að leyfa því að njóta sín af og til.

3. Skart og skraut er til að nota það
Hér er reyndar ekki átt við að skreyta sig eins og jólatré. Aukahlutir við einfaldan fatnað geta hins vegar verið himnasending á slæmum dögum. Fallegir skór, veski, eyrnalokkar eða hálsmen eiga einmitt að fá að njóta athyglinnar af og til - á kostnað maga, rass og læra.

4. Vönduð snið klæða af
Oft er þörf fyrir vel sniðinn fatnað - en sjaldan eins og í miðri janúarljótunni. Það er svo miklu fallegra að klæðast vel sniðinni flík en fela sig í hólkvíðri. Það er líka misskilningur að víðar flíkur klæði af manni - það geta betur sniðnar hins vegar gert.

5. Hækkaðu þig upp
Hælaskór teygja aðeins á manni og gera tignarlegri. Maður ber sig einhvern veginn svo miklu betur með smáupphækkun. Og ef það er hálka úti - þá tekur maður hælana bara með sér í poka þangað sem maður að fara og fer pent í þá á staðnum.

6. Gefðu hárinu lyftingu
Allar klæðir að gefa hárinu smályftingu! Lítið mál er að túpera aðeins rótina til að hárið liggi ekki marflatt eins og gardína á kollinum. Ef buddan er ekki alveg tóm eftir jólin má líka skella sér í blástur á stofu.

7. Falleg nærföt
Það er alltaf gaman að klæðast fallegum nærfötum. Og miklu skiptir að þau séu af réttri stærð - þ.e. brjóstahaldarinn. Vel klædd innst sem yst getur gert kraftaverk fyrir sjálfstraustið á slæmum dögum.

8.  Drekktu vatn
Gömul saga og ný - en á enn við! Vatnið hjálpar til við að slá á uppþembu auk þess sem það hreinsar líkamann fyrr af jólaeitrinu. Svo drekktu nóg.

9. Íhugaðu
Það getur verið gott að hreinsa hugann af og til, enda er hann almennt alltaf á fullu í amstri dagsins. Regluleg íhugun og jóga geta stuðlað að meiri jákvæðni og ró í sálinni og því tilvalið að tileinka sér þessi fræði í upphafi nýs árs.

10. Ekki láta ástandið draga þig niður
Í janúar gildir að láta ekki í minni pokann fyrir janúarljótunni! Ekki láta hana draga þig niður! Berðu höfuðið hátt og þig sjálfa vel - einmitt þannig er fólk heillandi. Það þarf ekkert að vera sætust eða mjóust - sjálfstraustið kemur þér langt. (Og ef það er pínu lúið - láttu þá ekki á neinu bera.)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda