Finnski rallökumaðurinn Marcus Grönholm missti Fordbíl sinn út af veginum í síðustu sérleið Þýskalandsrallsins í dag og við óhappið brotnaði fjaðrabúnaður bílsins að aftan. Grönholm tókst að komast í mark en féll niður úr 2. sæti í það fjórða. Grönholm sagði eftir rallið, að ástæðan fyrir óhappinu hefði verið nokkuð óvenjuleg.
„Ég sá kú og missti einbeitinguna. Ég bara flaug út af," sagði Grönholm, sem er fæddur og uppalinn á bóndabæ.
Grönholm hefur forustu í stigakeppni ökumanna eftir 10 af 16 rallkeppnum ársins, sem gefa stig til heimsmeistaratitils. Grönholm hefur 80 stig en Frakkinn Sébastien Loeb, sem afrekaði það að vinna Þýskalandsrallið sjötta árið í röð, er annar með 72 stig.