Grönholm vann með 0,3 sekúndna mun

Marcus Grönholm í Nýja-Sjálandsrallinu.
Marcus Grönholm í Nýja-Sjálandsrallinu. AP

Finninn Marcus Grönholm, sem ekur Ford Focus, vann Nýja-Sjálandsrallið í nótt en hann var aðeins 0,3 sekúndum á undan Frakkanum Sébastien Loeb, sem ekur Citroën C4. Þriðji varð Finninn Mikko Hirvonen á Ford Focus, 1,42 mínútum á eftir Grönholm. Þetta var fimmti sigur Grönholms í Nýja-Sjálandsrallinu og hann styrkti stöðu sína á toppi stigalistans.

Þeir Grönholm og Loeb skiptust á um að hafa forustuna í rallinu, Grönholm hafði forustu eftir fyrsta keppnisdag, Loeb eftir annan daginn, en Grönholm náði 0,1 sekúndu forskoti eftir fyrstu sérleiðina í nótt. Loeb náði aftur forustunni en Grönholm náði henni aftur á næst síðustu sérleið og hélt henni þótt Loeb ynni síðustu sérleiðina.

Í næstu sætum á eftir voru Ástralinn Chris Atkinson á Subaru, Eistinn Jari-Matti Latvala á Ford Focus, Spánverjinn Dani Sordo á Citroën, Norðmaðurinn Petter Solberg á Subaru Impreza, Eistinn Urmo Aava á Mitsubishi, Norðmaðurinnn Henning Solberg á Ford Focus og Bretinn Matthew Wilson á Ford Focus.

Grönholm er í essinu sínu á malarvegum eins og notaðir eru í Nýja-Sjálandsrallinu en Loeb nýtur sín betur á vegum með slitlagi. Fimm keppnir eru eftir á keppnistímabilinu og eru þrjú þeirra á vegum með slitlagi en tvö á malarvegum.

Grönholm hefur nú 90 stig í keppni ökumanna, Loeb 80, Hirvonen 69, Sordo 32, Petter Solberg 31 og Henning Solberg 28.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert