Bandaríska hlaupadrottningin Marion Jones bað aðdáendur sína grátandi fyrirgefningar á tröppum dómshússins í White Plains í New York í Bandaríkjunum í dag eftir að hún viðurkenndi fyrir dómara að hafa tekið ólögleg steralyf og logið vísvitandi til um það. Þá tilkynnti hún að hún væri hætt keppni í íþróttum en hún gæti átt allt að sex mánaða fangelsisdóm yfir höfði sér vegna málsins.
„Ég hef brugðist ykkur," sagði hún. „Ég hef brugðist föðurlandi mínu og sjálfri mér. Það er með mikilli skömm sem ég stend frammi fyrir ykkur og viðurkenni að ég hafi brugðist trausti ykkar. Ég viðurkenni það með því að biðjast innilega afsökunar. Það er ekki víst að það nægi til að bæta fyrir þá kvöl og þau vonbrigði sem ég hef valdið ykkur en ég bið ykkur um að fyrirgefa mér gerðir mínar og vona að þið getið fundið fyrirgefninguna í hjörtum ykkar."
Jones sagðist hafa gert sér grein fyrir því í nóvember árið 2003 að þjálfari hennar Trevor Graham hefði gefið henni ólögleg lyf. Þá sagðist hún hafa tekið steralyf frá því í september árið 2000 og fram í júlí árið 2001.
Dómur verður kveðinn upp yfir Jones í janúar á næsta ári.