Finninn Mikko Hirvonen, sem ekur Ford Focus, vann Japansrallið, sem lauk á Hokkaido í morgun. Hirvonen endaði 37,4 sekúndum á undan Spánverjanum Dani Sordo, sem ekur Citroën C4, og 4,33 mínútum á undan Norðmanninum Henning Solberg á Ford Focus. Þetta er þriðji sigur Hirvonens á ferlinum.
Bæði Finninn Marcus Grönholm og Frakkinn Sébastien Loeb, sem berjast um heimsmeistaratitil ökumanna, misstu bíla sína útaf veginum í rallinu. Loeb hélt þó keppninni áfram og vann fjórar sérleiðir í dag en endaði samt neðarlega.
Bretinn Matthew Wilson á Ford Focus varð fjórði, Argentínumaðurinn Luis Perez Companc á Ford Focus fimmti og Austurríkismaðurinn Manfred Stohl á Citroën Xsara sjötti.
Í stigakeppni ökumanna hefur Grönholm 104, Loeb 100 stig, Hirvonen 84, Sordo 53 og Norðmaðurinn Petter Solberg 38 stig. Tvær keppnir eru eftir á keppnistímabilinu.