Framganga gamla stórveldisins Los Angeles Lakers í úrslitakeppni NBA-körfuboltans tvö undanfarin ár var snautleg. Í bæði skiptin lagði liðið niður skottið eftir glímu við Phoenix Suns strax í fyrstu umferðinni. Í kjölfarið greip mikið óyndi erkikempu liðsins, Kobe Bryant, og síðastliðið haust leit út fyrir að hann hefði hreinlega fengið sig fullsaddan af dvölinni í Staples Center. Skyldi engan undra, Bryant er einn fremsti íþróttamaður sinnar kynslóðar í heiminum og sættir sig ekki til lengdar við hálfkák. Hann er ekki í körfubolta til að hnykla vöðvana – heldur til að vinna titla. Það hefur Lakers ekki gert í sex ár.
Bryant lét aursletturnar ganga yfir stjórn Lakers og bar henni metnaðarleysi á brýn. Ýmsir voru því hissa að sjá hann skrýðast búningi félagsins er flautað var til leiks í NBA-liðið haust. Ekkert virtist heldur hafa breyst. Liðið var á svipuðu róli og undanfarin ár, virtist lengi vel rétt ætla að skríða inn í úrslitakeppnina, þar sem það yrði að óbreyttu fallbyssufóður fyrir meiri spámenn. En þá dró til tíðinda.
Inn á sviðið steig í byrjun febrúar Pau Gasol, stæðilegur Spánverji, jafnvígur á stöðu miðherja og framherja sem á umliðnum árum hefur skipað sér á bekk með betri leikmönnum deildarinnar. Lið hans, Memphis Grizzlies, lét hann þó ekki baráttulaust af hendi. Lakers þurfti að láta þrjá leikmenn fara í hina áttina, Kwame Browne, Javaris Crittenton og Aaron McKie, sem keyptur var fyrr um daginn, auk þess sem Grizzlies fær valrétt Lakers í fyrstu umferð nýliðavalsins í sumar og sumarið 2010 og merkilegt nokk rétt til að yfirtaka samning Marcs Gasols, yngri bróður Paus, sem var í eigu Lakers en spilar nú með Akasvayu Girona í heimalandi sínu.
„Við erum himinlifandi yfir þessum skiptum,“ sagði Mitch Kupchak, framkvæmdastjóri Lakers, daginn sem samningurinn var gerður. „Pau er stjörnuleikmaður sem hefur sannað sig í deildinni. Hann getur bæði skorað og hirt fráköst og er ennþá ungur að árum. Við erum sannfærðir um að koma hans styrkir lið okkar til skemmri og lengri tíma.“
Kobe Bryant tók í sama streng. „Þessi skipti bera vitni um metnað félagsins en eins og menn vita hef ég dregið hann í efa. Þetta er stórt skref, Pau er fjölhæfur og einstaklega hæfileikaríkur leikmaður.“
Þegar hann var spurður hvort þetta nægði til að tryggja Lakers þjónustu hans áfram svaraði hann sposkur: „Þetta spillir ekki fyrir.“
Pau Gasol hefur gerbreytt leik Lakers til hins betra. Hann gaf tóninn strax í fyrsta leik gegn New Jersey Nets, skoraði 24 stig og hirti 13 fráköst. Fram að úrslitakeppni gerði hann að meðaltali 18,8 stig og létti byrðinni af Kobe Bryant. Andstæðingar Lakers þurfa ekki lengur bara að hafa áhyggjur af einum manni.
Gasol er hávaxinn, 213 cm á hæð, og nýtist því vel í baráttunni undir körfunni. Hann er líka lygilega kvikur miðað við hæð og prýðilegur skotmaður sem þýðir að hann getur hæglega spilað stöðu framherja. Þá er hann frambærilegur varnarmaður.
Það var heldur ekki að sökum að spyrja. Lakers reif sig upp töfluna og vann á endanum vesturdeildina í fyrsta skipti í fjögur ár. Eftir komu Gasols hefur liðið farið með sigur af hólmi í 31 leik en aðeins tapað níu.