Gísli Gunnar Jónsson sigraði í 2. umferð heimsbikarmótsins í torfæruakstri sem ekin var við Hellu í dag. Gísli var ekki ánægður með árangur sinn í fyrstu umferðinni, sem ekin var á laugardaginn en þar varð hann að láta sér lynda 2. sætið.
Gísli tók til sinna ráða og skipti um vél í bíl sínum aðfaranótt sunnudagsins og mætti tvíefldur til leiks í 2. umferðina þar sem hann sigraði eins og fyrr sagði. Gunnar Gunnarsson á Trúðnum varð í 2. sæti og Ólafur Bragi Jónsson á Refnum varð þriðji.
Í flokki breyttra götubíla sigraði Ragnar Róbertsson á N1 Willysnum, Bjarki Reynisson varð annar og Benedikt Sigfússon á Hlunknum þriðji.