Lokaumferð Íslandsmeistaramótsins í rallakstri fór fram í dag á Reykjanesi. Sigurður Bragi Guðmundsson og Ísak Guðjónsson á Mitsubishi Lancer Evo 7 stóðu best að vígi fyrir lokaumferðina en þeir höfðu 5,5 stiga forskota á Pétur S. Pétursson og Heimi S. Jónsson á Mitsubishi Lancer Evo 6.
Pétur og Heimir höfðu allt að vinna og engu að tapa svo þeir stóðu bíl sinn flatan allar sérleiðir rallsins og tókst með því að sigra í rallinu en það dugði þeim ekki til að ná titlinum.
Til að svo hefði mátt verða þurfti einhver annar keppandi einnig að verða á undan Sigurði Braga og Ísak. En Sigurður Bragi og Ísak óku af miklu öryggi, tóku engar óþarfa áhættur og lögðu megináherslu á að ljúka keppninni. Þeir náðu öðru sætinu á eftir Pétri og Heimi og tryggðu sér með því titilinn með 1,5 stigs mun.