Sömu úrslit í öllum leikjum kvöldsins

Norðan hvassviðri setti svip sinn á leiki kvöldsins í Landssímadeildinni í knattspyrnu. Þrír leikir fóru fram í kvöld og urðu sömu úrslit í þeim öllum. Á Laugardalsvelli báru KR-ingar sigurorð af Frömurum, 0:1, Skagamenn sigruðu Leiftursmenn á Akranesi, 1:0, og í Keflavík unnu heimamenn Breiðablik með sömu markatölu. Leik ÍBV og Fylkis, sem einnig átti að fara fram í kvöld, var frestað vegna þess að ekki var flugfært til Eyja og fer hann fram annað kvöld.

Keflavík - Breiðablik 1:0
Fyrsta mark Íslandsmótið árið 2000 var að þessu sinni skorað í Keflavík og var það að verki Keflvíkingurinn Guðmundur Steinarsson. Hann skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 14. mínútu. Leikur Keflavíkur og Breiðabliks var í daufari kantinum og lék vindurinn þar stórt hlutverk, eins og í hinum leikjunum tvemur. Fram - KR 0:1
Norðanrokið stóð beint upp á syðra markið á Laugardalsvelli í kvöld. Framarar léku undan vindi í fyrri hálfleik en þeim tókst ekki að færa sér það í nyt og staðan í leikhléi var 0:0. KR-ingar léku betur í kvöld og voru mun sterkari í síðari hálfleik. Andri Sigþórsson skoraði sigurmark KR-inga eftir sjö mínútna leik í síðari hálfleik og þrátt fyrir nokkur ágæt marktækifæri tókst KR-ingum ekki að bæta við mörkum. ÍA - Leiftur 1:0
Skagamenn höfðu tögl og hagldir í viðureign sinni við Leiftur á Akranesi. Baldur Aðalsteinsson skoraði fyrir ÍA á 14. mínútu og reyndist það sigurmark leiksins. Vindurinn stóð þvert á völlinn á Akranesi og aðstæður til að leika knattspyrnu voru ekki góðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert