Miklir yfirburðir Skagamanna

Keflvíkingar sóttu ekki gull í greipar Skagamanna þegar liðin mættust á sunnudagskvöld á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Heimamenn gáfu efsta liði deildarinnar lítið svigrúm til að athafna sig og tvö mörk frá leikmönnum ÍA litu dagsins ljós í hvorum hálfleik, 2:0.

Leikmenn Keflavíkur náðu varla að ógna marki heimamanna en þess í stað voru sóknir Skagamanna markvissar og gat liðið skoraði mun fleiri mörk í leiknum. Skagamenn tóku upp þráðinn frá því í tapleiknum gegn KR í síðustu umferð og miðað við frammistöðu þeirra á sunnudag er liðið til alls líklegt í baráttu sumarsins. Keflvíkingar vilja eflaust gleyma þessum leik sem fyrst, enda voru allar aðgerðir liðsins máttlitlar og tilviljunarkenndar.
Dagsskipun Ólafs Þórðarsonar þjálfara Akraness var að sækja hart að leikmönnum Keflvíkinga framarlega á vellinum og var oft á tíðum líkt og leikmenn íklæddir gulum treyjum væru fleiri inni á vellinum. Keflvíkingum gekk afar illa að senda boltann á milli sín og leikur liðsins var hreinlega í molum. Hinir lipru og eldfljótu framherjar liðsins, Haukur Ingi Guðnason og Guðmundur Steinarsson, máttu sætta sig við að fá háar sendingar í gríð og erg frá samherjum sínum en varnarmönnum ÍA hefur ekki þótt leiðinlegt að skalla burtu nánast alla sendingar sem ætlaðar voru þeim Hauki og Guðmundi.

Keflvíkingar áttu fyrsta markskotið í leiknum, Haukur Ingi skaut þá fram hjá á 13. mínútu en færið var þröngt. Skagamenn náðu fljótlega tökum á miðsvæðinu og markið sem Grétar Rafn Steinsson skoraði á 14. mínútu var í raun fyrsta færi heimamanna í leiknum. Eftir markið sóttu Skagamenn án afláts, fyrst skaut Haraldur Hinriksson fram hjá úr góðu færi og mínútu síðar skaut Ólafur Þórðarson frá vítateig. Ólafur lék aftarlega á miðjunni að þessu sinni í stað þess að vera í vörninni og baráttuandi hans skilaði sínu. Í lok fyrri hálfleiks lauk sóknarskorpu Skagamanna þegar Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Keflvíkinga mokaði knettinum yfir markslána eftir að skot frá Haraldi Hinrikssyni hafði farið í samherja Gunnleifs.

Síðari hálfleikur var nánast endurtekning á þeim fyrri, Skagamenn réðu ferðinni og hver Skagasóknin rak aðra á meðan gestirnir náðu varla að komast fram fyrir miðlínu. Haraldur Hinriksson skoraði annað mark ÍA á 68. mínútu eftir undirbúning frá Grétari og margir héldu að heimaliðið myndi draga sig aftar á völlinn og halda fengnum hlut en það varð ekki raunin. Keflvíkingar fækkuðu í vörninni eftir seinna mark Skagamanna og freistuðust til að sækja meira en varnarvinna Skagamanna hélt áfram af sama krafti og í upphafi leiks. Það var oftar en ekki sem leikmenn ÍA unnu boltann á miðjum vallarhelmingi Keflvíkinga og er langt síðan þeir gulklæddu hafa haft úr jafnmörgum marktækifærum að moða og raun bar vitni. Haraldur, Kári Steinn, Ólafur og Sturla Guðlaugsson áttu allir ákjósanleg tækifæri en fóru illa að ráði sínu og í raun gefur 2:0 sigur ÍA ranga mynd af leiknum, mörkin hefðu átt að vera fleiri.

Leikur Keflvíkinga var hvorki fugl né fiskur. Sóknarlotur liðsins voru tilviljunarkenndar og það var eins og menn vissu ekki að Haukur Ingi býr yfir miklum hraða sem flestir varnarmenn óttast en þeir Gunnlaugur Jónsson og Reynir Leósson kunnu vel að meta háar sendingar sem ætlaðar voru Hauki.

Þrír miðjumenn Skagamanna höfðu algjöra yfirburði gegn fjórum miðvallarleikmönnum gestanna og þeir Grétar Rafn og Haraldur voru ávallt skrefinu á undan í öllum aðgerðum. Sóknarleikur ÍA naut góðs af baráttuanda liðsins og boltinn vannst á hættulegum svæðum.Vængmennirnir Kári Steinn Reynisson og Baldur Aðalsteinsson fengu úr miklu að moða og Hjörtur Hjartarson var ógnandi í fremstu víglínu. Bræðurnir Pálmi og Sturlaugur Haraldssynir stigu varla feilspor sem bakverðir og er langt síðan sá síðarnefndi hefur brugðið sér jafnoft í sóknina og gerðist í leiknum.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert