KR sigraði norska knattspyrnuliðið Brann, 4:0, á æfingamóti á La Manga á Spáni í dag með tveimur mörkum frá Atla Jóhannssyni en Sigmundur Kristjánsson og Guðmundur Pétursson skoruðu eitt mark hvor.
Teitur ósáttur við Semb
Teitur Þórðarson þjálfari KR var ósáttur við ummæli Nils Johan Semb fyrrum landsliðsþjálfara Norðmanna sem vinnur nú sem sérfræðingur hjá norsku sjónvarpsstöðinni TV2. Semb sagði m.a.að mótspyrna þeirra liða sem voru á La Manga væri ekki nógu mikil fyrir norsku liðin. Teitur sagði að Semb hefði átt að halda þessari skoðun fyrir sig.
„Við erum ekki komnir á sama stall og norsku liðin en við erum hér til þess að verða betri og spila gegn betri liðum,“ sagði Teitur m.a. við Verdens Gang í dag og bætti við. „Allir leikmenn okkar eru í vinnu og þeir nota 2 vikur af sumarfríi sínu til þess að komast í þessa ferð. Þeir greiddu einnig um 60.000 kr. í ferðakostnað. Mér líka illa við að fá skítkast frá sérfræðingi sjónvarpsstöðvar með þessum hætti,“ sagði Teitur m.a.