Óðinn Árnason varnarmaður Fram skoraði mark á 88. mínútu gegn Val í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar en leiknum lauk með jafntefli, 1:1. Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta mark sitt fyrir Val í Landsbankadeildinni á 14. mínútu en liðin eigast við á Laugardalsvelli.
Helgi lék með Fram á síðustu leiktíð en hann gekk í raðir Vals í vetur. Tveir leikir fara fram kl. 19:15 en þar tekur Breiðablik á móti Fylki og Víkingur leikur gegn nýliðum HK.
„Ég er sáttur við eitt stig úr þessum leik og við vorum ekki slakari aðilinn í þessum leik. Við áttum fín færi en miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá getum við verið sáttir,“ sagði Ólafur Þórðarson þjálfari Fram í sjónvarpsviðtali eftir leikinn en þetta er fyrsti leikur Fram undir hans stjórn í Landsbankadeildinni.
„Að fá aðeins eitt stig úr þessum leik er ekki nógu gott. Við fengum fullt af marktækifærum til þess að gera út um leikinn og mér fannst Framliðið varla skapa sér færi í leiknum. Við sváfum á verðinum í aukaspyrnunni undir lok leiksins,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Vals í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.