Tveir leikmenn frá Króatíu sem leikið hafa í efstu deild í heimalandi sínu eru á leið til ÍA á Akranesi en frá þessu er greint á heimasíðu félagsins. Þeir verða ekki með gegn Fram á morgun þegar þriðja umferð Landsbankadeildarinnar hefst en þeir eru komnir til landsins og munu fylgjast með leiknum.
Guðjón Þórðarson segir á heimasíðu ÍA að leikmennirnir hafi fengið góða umsögn en um er að ræða varnarmann og framherja. Guðjón bætir því við að von sé á einum erlendum leikmanni til viðbótar. Skagamenn hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Landsbankadeildinni, gegn FH, 3:2, og í síðustu umferð tapaði liðið 1:0 gegn nýliðum HK.