Fram vann í kvöld sinn fyrsta sigur í Landsbankadeildinni þegar liðið lagði Fylki, 3:1, á Laugardalsvelli. Fylkismenn komust yfir í byrjun síðari hálfleiks með marki Vals Fannars Gíslaonar en tvö mörk frá Hjálmari Þórarinssyni og eitt frá Jónasi Grana Garðarssyni tryggðu Fram sigurinn. Fylgst var með gangi mála í textalýsingu á mbl.is.
Garðar Örn Hinriksson flautar til leiksloka. Framarar fagna fyrsta sigrinum í deildinni í ár og eru komnir upp að hlið Skagamanna með 5 stig í 8.-9. sæti en Fylkismenn eru í 4. sæti með 11 stig.
90. 3:1. Hjálmar Þórarinsson innsiglar sigur Framara. Hjálmar fékk sendingu inn í teiginn og skoraði af öryggi en fátt var um varnir hjá Fylkismönnum.
Fylkismenn hafa skipt Hauki Inga Guðnasyni inná og freista þess að jafna metin gegn Frömrum. Tíu mínútur eru eftir og Framarar eygja sinn fyrsta sigur í Landsbankadeildinni í ár.
73. 2:1. Jónas Grani Garðarsson kemur Frömunum yfir gegn Fylkismönnum. Jónas fékk sendingu inn fyrir vörn Fylki frá Alexander Steen. Hann lék á Fjalar Þorgeirsson markvörð Fylkis og skoraði af öryggi.
61. 1:1. Hjálmar Þórarinsson skorar af öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar Daninn Peter Gravesen handlék boltann innan vítateigs.
51. 0:1. Valur Fannar Gíslason kemur Fylkismönnum yfir. Halldór Hilmisson átti sendingu inn á miðjan vítateig Framara. Valur Fannar fékk boltann og lagði hann snyrtilega í hornið.
Garðar Örn Hinriksson, dómari, hefur flautað til leikhlés á Laugardalsvelli. Staðan er 0:0. Framarar hafa verið nær því að skora og besta færið fékk Igor Pesic en Fjalar Þorgeirsson markvörður Fylkismanna varði vítaspyrnu frá Pesic á 41. mínútu.
41. Framarar fá vítaspyrnu þegar brotið er á Ívari Björnssyni. Igor Pesic framkvæmir vítaspyrnuna en Fjalar Þorgeirsson markvörður Fylkismanna gerir sér lítið fyrir og ver spyrnuna.
Framarar hafa sótt í sig veðrið og hafa fengið tvö bestu færi leiksins. Hjálmar Þórarinsson fékk þau bæði en fyrrum samherji hans hjá Þrótti, Fjalar Þorgeirsson, sá við honum í bæði skiptin.
16. Fylkismenn þurfa að gera breytingu á liði sínu. Víðir Leifsson verður að fara af velli vegna meiðsla og kemur Albert Brynjar Ingason inná í hans stað.
15 mínútur eru liðnar af leik Fram og Fylkis og hafa engin marktækifæri litið dagsins ljós. Liðin eru að þreifa fyrir sér en aðstæður eru allar hinar bestu á Laugardalsvelli, hægur vindur, milt og völlurinn góður.
Lið Fram: Hannes Þór Halldórsson - Óðinn Árnason, Reynir Leósson, Ingvar Ólason, Andri Karvelsson, Kristján Hauksson, Igor Pesic, Theodór Óskarsson, Jónas Grani Garðarsson, Ívar Björnsson, Hjálmar Þórarinsson.
Lið Fylkis: Fjalar Þorgeirsson - Kristján Valdimarsson, David Hannah, Andrés Már Jóhannesson, Víðir Leifsson, Halldór Hilmisson, Ólafur Ingi Stígsson, Valur Fannar Gíslason, Peter Cravesen, Hermann Aðalgeirsson, Christian Christiansen.