Breiðablik - HK 3:0

Hart barist í Kópavogsslagnum í kvöld.
Hart barist í Kópavogsslagnum í kvöld. Sverrir Vilhelmsson

Breiðablik vann HK, 3:0, í uppgjöri Kópavogsliðanna á Kópavogsvelli í kvöld, en þetta var í fyrsta sinn sem liðin mætast í efstu deild karla í knattspyrnu. Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir Blika. Nokkuð á þriðja þúsund áhorfendur voru á leiknum en mikil eftirvænting hefur ríkt í Kópavogi vegna leiksins undanfarna daga. Þrátt fyrir sigur Blika þá standa liðin jöfn með 10 stig eftir 8 leiki.

3. Arnar Grétarsson tekur aukaspyrnu frá hægri kanti, sendir boltann inn á miðjan vítateig HK þar sem Kristján Óli Sigurðsson kemur á fullri ferð og spyrnir knettinum í vinstra markhornið og kemur Breiðablik yfir í þessum stórleik Kópavogsliðanna sem eigast nú við í fyrsta sinn í efstu deild karla í knattspyrnu.

Leikmenn Breiðabliks reyna að fylgja markinu eftir með ákveðnum sóknum en vantar herslumuninn upp á að skora. 15. Rúnar Sigmundsson á fast skot úr aukaspyrnu af 25 metra færi en Casper Jacobsen, markvörður Breiðabliks, er vel með á nótunum og varði. Aukaspyrnan var dæmd eftir að Kristján Óli hafi togað Jón Þorgrím Stefánsson, leikmann HK, niður. Kristján Óli fékk gult spjald að launum. 17. Jón Þorgrímur er aðgangsharður upp við mark Breiðabliks. Leikmenn HK eru smátt og smátt að jafna sig á markinu sem þeir fengu á sig í upphafi leiks og færa sig smátt og smátt framar á leikvöllinn. 23. Guðmann Þórisson skallar boltann framhjá marki HK eftir aukaspyrnu Arnars Grétarssonar. 40. Fátt hefur verið um marktækifæri en mikil barátta er í leiknum í blíðskaparveðri á Kópavogsvelli þar sem talið er að á þriðja þúsund áhorfendur fylgist með. 44. Arnar Grétarsson kemst inn fyrir vörn HK en skot hans fer rétt yfir markið. 45. Flautað til loka fyrri hálfleiks. HK-menn hefja síðari hálfleik af miklum krafti. Rúnar Sigmundsson átti hættulega aukaspyrnu inn á vítateig Breiðabliks á 48. mínútu sem Casper Jacobsen átti í vandræðum með í marki Blika. 54. Jón Þorgrímur Stefánsson komst upp að endamörkum hjá Breiðabliki og vantaði herslumuninn upp á að leikmenn HK næði að skora en Guðmann Þórisson hreinsaði frá markinu á elleftu stundu. 55. Kristján Óli Sigurðsson er í góðu færi en laust skot hans af skömmu færi fer beint í fangið á Gunnleifi Gunnleifssyni, markverði HK. 56. Jón Þorgrímur skallar boltann yfir mark Breiðabliks af stuttu færi eftir frábæra sendingu frá Hólmari Erni Eyjólfssyni - rangstaða dæmd. 59. Arnar Grétarsson spyrnir boltanum úr aukaspyrnu frá hægri kanti. Boltinn berst inn í vítateig HK þar sem Olgeir Sigurgeirsson skallar boltann stöng, þaðan hrekkur boltinn út í teiginn þar sem Price Rajcomar er réttur maður á réttum stað um miðjan vítateiginn. Hann skallar knöttinn af krafti í mark HK, hans fyrsta mark á keppnistímabilinu. 60. HK skiptir Þórði Birgissyni útaf - inn á kemur Oliver Jaeger. 70. HK skiptir Rúnari Sigmundssyni útaf - inn á kemur Eyþór Guðnason. 72. Vítaspyrna dæmd á Breiðablik eftir að brotið var á Oliver Jaeger innan vítateigs. Breiðabliksmenn voru mjög ósáttir við dóminn en Magnúsi Þórissyni, dómara, var ekki hnikað. Casper Jacobsen, markvörður Breiðabliks, varði vítaspyrnuna sem Finnbogi Llorenz tók. 78. Jón Þorgrímur Stefánsson fékk gult spjald fyrir að ganga harkalega í Jacobsen markvörð Breiðabliks, að mati Magnúsar dómara. 88. Olgeir Sigurgeirsson skorar þriðja mark Breiðabliks með þrumuskoti rétt utan vítateigs eftir sendingu frá Magnúsi Páli Gunnarssyni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka