Tveir leikir fóru fram í kvöld í Landsbankadeild karla. Á Laugardalsvelli áttust við Fram og Breiðablik og þar hafði Fram sigur, 1:0, með marki Jónasar Grana Garðarssonar rúmum 20 mínútum fyrir leikslok. Í hinum leik kvöldsins unnu FH-ingar Víkinga 4:1 á Kaplakrikavelli. FH-ingar voru komnir í 3:0 eftir 36 mínútna leik, en Víkingar minnkuðu muninn rétt fyrir leikhlé með marki úr hornspyrnu. Atli Guðnason skoraði síðasta mark FH í uppbótartíma. Fylgst var með leikjunum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
4:1 (90.) Atli Guðnason skorar fjórða mark FH-inga í uppbótartíma. FH fékk aukaspyrnu sem Tryggvi Guðmundsson var fljótur að taka. Hann sendi boltann á Atla sem skoraði laglegt mark frá vítateigslínu yfir Bjarna í markinu.
83. Blikar leggja nú allt kapp á að jafna metin gegn Frömurum, sem hafa dregið lið sitt aftur á völlinn, og meðal annars átti Prince Rajcomar hörkuskot á 80. mínútu sem fór í andlit Hannesar markvarðar.
68. 1:0 Jónas Grani Garðarsson skorar fyrir Framara með skalla eftir aukaspyrnu Igor Pesic frá miðjum vallarhelmingi Blika, en þetta verður að teljast nokkuð gegn gangi leiksins.
67. Staðan er enn 3:1 í Hafnarfirði en Víkingar hafa átt nokkrar hornspyrnur sem ekki hefur tekist að nýta. Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH, kom sér í ágætis færi í byrjun hálfleiksins en skaut yfir.
55. Blikar áttu tvö hættuleg markskot í sömu sókninni. Fyrst skaut Olgeir Sigurgeirsson og síðan Nenad Zivanovic en hvorugur þeirra kom boltanum í netið. Blikaliðið hefur verið ívið sterkara á upphafsmínútum seinni hálfleiks.
49. Blikarnir fengu tvö ágætis færi á sömu mínútunni en hvorki Kristjáni Óla Sigurðssyni né Nenad Petrovic tókst að skora.
48. Framarar fengu fínt færi en Jónas Grani Garðarsson átti aftur skall á marklínu en náði ekki að skora.
Nú er kominn hálfleikur í leikjum kvöldsins. Í Laugardalnum hefur talsvert jafnræði verið með liðunum en Framarar áttu þó vítaspyrnu sem þeir klúðruðu. FH-ingar eru með góða stöðu á móti Víkingum en Víkingar náðu reyndar að minnka muninn undir lok hálfleiksins.
3:1 (45.) Arnar Jón Sigurgeirsson skorar ansi skrautlegt mark fyrir Víkinga beint úr hornspyrnu. Markið skrifast að miklu leyti á Daða Lárusson, markvörð FH, sem hálfpartinn sló knöttinn inn. Það má þó segja Daða til hróss að hann var nýbúinn að verja framhjá skot frá Arnari Jóni úr dauðafæri, en í kjölfarið kom hornspyrnan.
36. Framarar fá víti eftir að brotið er á Jónasi Grana Garðarssyni. Igor Pesic tók spyrnuna og átti fast skot en Casper Jacobsen kýldi knöttinn yfir. Enn eitt víti Framara því farið forgörðum í sumar, en Casper ver víti annan leikinn í röð.
3:0 (35.) Guðmundur Sævarsson, hægri bakvörður FH-inga, skorar af fremur stuttu færi eftir ágætan undirbúning Matthíasar Guðmundssonar. Guðmundur fékk boltann hægra megin í teignum og skoraði niðri í fjærhornið.
2:0 (29.) Matthías Guðmundsson, FH-ingur, sleppur inn fyrir vörn Víkinga eftir stungusendingu frá Tommy Nielsen og skorar auðveldlega. Víkingar hafa sótt meira eftir fyrra mark FH-inga en ekki haft erindi sem erfiði.
27. Magnús Páll Gunnarsson, leikmaður Blika, þarf að fara útaf vegna meiðsla og í hans stað kemur Nenad Zivanovic.
25. Framarar áttu besta færi leiksins til þessa þegar að Jónas Grani Garðarsson skallaði knöttinn af markteig eftir fyrirgjöf, en hann missti marks.
1:0 (19.) Matthías Vilhjálmsson skorar laglegt mark fyrir FH-inga með hjólhestaspyrnu. Tryggvi Guðmundsson átti fyrirgjöf sem að Víkingar skölluðu út í teiginn þar sem að Matthías sýndi þessi líka laglegu tilþrif og skoraði yfir Bjarna í markinu.
15. Enn hefur ekkert markvert gerst í leik Fram og Breiðablik og virðast liðin frekar jöfn. Svipuð staða er í Hafnarfirði en þar átti Matthías Guðmundsson reyndar skalla framhjá markinu af stuttu færi.
5. Leikirnir eru hafnir en enn hefur ekki dregið til tíðinda.
Lið Fram: Hannes Þór Halldórsson, Óðinn Árnason, Reynir Leósson, Daði Guðmundsson, Jónas Grani Garðarsson, Hjálmar Þórarinsson, Alexander Steen, Igor Pesic, Ívar Björnsson, Kristján Hauksson, Jón Guðni Fjóluson.
Lið Breiðabliks: Casper Jacobsen, Árni Kristinn Gunnarsson, Srdjan Gasic, Guðmann Þórisson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Olgeir Sigurgeirsson, Arnar Grétarsson, Nenad Petrovic, Kristján Óli Sigurðsson, Magnús Páll Gunnarsson, Prince Rajcomar.
Lið FH: Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen, Hjörtur Logi Valgarðsson, Matthías Guðmundsson, Davíð Þór Viðarsson, Dennis Siim, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Tryggvi Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson.
Lið Víkings: Bjarni Þórður Halldórsson, Grétar S. Sigurðsson, Valur A. Úlfarsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Hörður S. Bjarnason, Arnar Jón Sigurgeirsson, Jón B. Hermannsson, Jökull I. Elísabetarson, Gunnar Kristjánsson, Sinisa Valdimar Kekic, Björn Viðar Ásbjörnsson.