Valsmenn sigruðu KR-inga, 3:0, í fyrsta leiknum í 12. umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu sem fram fór á KR-vellinum í kvöld. Baldur Aðalsteinsson skoraði tvö fyrstu mörkin á 67. og 71. mínútu og Helgi Sigurðsson innsiglaði sigurinn með marki á 82. mínútu.
Valsmenn eru þá tveimur stigum á eftir FH-ingum í öðru sæti deildarinnar, eru með 24 stig en leik FH-inga í þessari umferð, gegn HK, var frestað vegna Evrópuleiks þeirra í dag.
KR-ingar sitja hinsvegar áfram á botninum með aðeins 7 stig og markatöluna 9:20 en Framarar eru næstir fyrir ofan þá með 8 stig og eiga leik til góða, gegn ÍA annað kvöld.
Fylgst var með leiknum í textalýsingu á mbl.is og fer hún hér á eftir:
88. Daníel Hjaltason kemur inná hjá Val fyrir Pálma Rafn Pálmason.
86. Björgólfur Takefusa kemst í færi af harðfylgi á markteig Vals en skýtur í hliðarnetið.
84. Dennis Bo Mortensen kemur inná hjá Val fyrir Baldur Aðalsteinsson, besta leikmann vallarins.
82. 0:3 Helgi Sigurðsson kemur Val þremur mörkum yfir eftir slæm mistök Gunnlaugs Jónssonar, sem reyndi að skalla boltann til baka til Stefáns Loga markvarðar. Helgi stakk sér inní sendinguna og afgreiddi boltann viðstöðulaust í markið.
81. Grétar Hjartarson reynir skot að marki Vals úr aukaspyrnu af rúmlega 20 metra færi en yfir þverslána.
80. Atli Jóhannsson hjá KR fær gula spjaldið fyrir brot.
78. Sigurbjörn Hreiðarsson kemur inná hjá Val fyrir Baldur Bett.
76. Guðmundur Pétursson kemur inná hjá KR fyrir Bjarnólf Lárusson.
74. Helgi Sigurðsson reynir hjólhestaspyrnu að marki KR en beint á Stefán Loga markvörð.
72. Atli Jóhannsson kemur inná hjá KR fyrir Skúla Jón Friðgeirsson.
71. 0:2. Baldur Aðalsteinsson skorar aftur fyrir Val, nú með hörkuskalla eftir aukaspyrnu Guðmundar Benediktssonar frá hægri.
70. Sigþór Júlíusson úr KR fær gula spjaldið fyrir brot.
68. Ágúst Gylfason kemur inná hjá KR fyrir Rúnar Kristinsson.
67. 0:1. Guðmundur Benediktsson með gott skot frá vítateig en Stefán Logi í marki KR ver vel í horn. Guðmundur tekur hornspyrnuna og rennir boltanum útfyrir vítateig, Rene Carlsen á skot að marki og á markteignum er Baldur Aðalsteinsson og stýrir boltanum í netið.
60. Björgólfur Takefusa í upplögðu færi hægra megin í vítateig Vals eftir sendingu Grétars Hjartarsonar en missir boltann frá sér.
58. Stefán Logi markvörður KR ver frá Guðmundi Benediktssyni af stuttu færi eftir að Helgi Sigurðsson komst að endamörkum hægra megin og sendi fyrir.
48. Björgólfur Takefusa í dauðafæri fyrir innan vörn Vals þegar boltinn skrúfaðist þangað eftir skot í varnarmann en hann skallar langt framhjá.
46. Síðari hálfleikur er hafinn.
Flautað til hálfleiks og staðan er 0:0 þrátt fyrir fínan leik og ágæt marktækifæri. Valsmenn voru heldur sterkari í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér fleiri færi.
45 + 1 Tryggvi Bjarnason með skalla yfir mark Vals úr ágætu færi eftir aukaspyrnu Bjarnólfs Lárussonar.
45. Baldur Bett úr Val fær gula spjaldið fyrir mótmæli.
41. Baldur Aðalsteinsson með hjólhestaspyrnu að marki KR eftir hornspyrnu Guðmundar Benediktssonar og skalla Bjarna Ólafs Eiríkssonar en rétt yfir þverslána.
39. Óskar Örn Hauksson kemst í skotfæri vinstra megin í vítateig Vals en hittir ekki markið.
38. Stefán Logi markvörður KR bjargar á síðustu stundu þegar Baldur Aðalsteinsson er kominn einn innfyrir vörn KR. Stefán er á undan í boltann og kemur honum í burtu.
36. Grétar Hjartarson með góða rispu og á skot að marki Vals frá vítateigslínu hægra megin en í varnarmann og rétt framhjá stönginni fjær.
30. Guðmundur Benediktsson skallar yfir mark KR úr góðu færi í miðjum vítateig eftir aukaspyrnu Baldurs Aðalsteinssonar frá hægri. Baldur hefur farið á kostum á hægri vængnum hjá Val og leikið Sigþór Júlíusson grátt hvað eftir annað.
29. Helgi Sigurðsson með skot að marki KR vinstra megin úr vítateignum en Stefán Logi ver örugglega.
28. Helgi Sigurðsson með skalla að marki KR úr góðu færi eftir langa sendingu Bjarna Ólafs Eiríksson frá vinstri, en beint á Stefán Loga markvörð.
25. Bjarnólfur Lárusson í KR fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Helga Sigurðssyni sem var á fleygiferð upp vinstri kantinn.
9. Baldur Aðalsteinsson með glæsilega rispu upp hægra megin og sendir fyrir markið, Pálmi Rafn Pálmason skallar að marki KR úr dauðafæri, Stefán Logi ver glæsilega frá honum en virðist fella Guðmund Benediktsson í kjölfarið. Ekkert er dæmt.
6. Baldur Aðalsteinsson með þrumuskot að marki KR eftir hornspyrnu, með vinstri, en Stefán Logi Magnússon ver glæsilega í horn.
2. Björgólfur Takefusa brunar inní vítateig Vals, hægra megin og á fast skot en Kjartan ver af öryggi við stöngina nær. Góð byrjun KR-inga.
1. Björgólfur Takefusa með hörkuskot að marki Vals af 20 m færi og Kjartan Sturluson ver vel.
Pétur Hafliði Marteinsson, Guðmundur R. Gunnarsson og Jóhann Þórhallsson eru ekki með KR vegna meiðsla og hjá Val vantar Barry Smith og Hafþór Vilhjálmsson af sömu ástæðu. Þá er Sigmundur Kristjánsson hjá KR í leikbanni.
Lið KR: Stefán Logi Magnússon, Eggert Rafn Einarsson, Tryggvi Bjarnason, Gunnlaugur Jónsson, Sigþór Júlíusson, Skúli Jón Friðgeirsson, Bjarnólfur Lárusson, Rúnar Kristinsson, Óskar Örn Hauksson, Grétar Hjartarson, Björgólfur Takefusa.
Varamenn: Kristján Finnbogason, Kristinn Magnússon, Ágúst Gylfason, Atli Jóhannsson, Guðmundur Pétursson, Ásgeir Örn Ólafsson.
Lið Vals: Kjartan Sturluson, Birkir Már Sævarsson, Atli Sveinn Þórarinsson, Gunnar Einarsson, Rene Carlsen, Baldur Aðalsteinsson, Baldur Bett, Pálmi Rafn Pálmason, Bjarni Ólafur Eiríksson, Guðmundur Benediktsson, Helgi Sigurðsson.
Varamenn: Steinþór Gíslason, Sigurbjörn Hreiðarsson, Kristinn Hafliðason, Dennis Bo Mortensen, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Kristinn Geir Guðmundsson, Daníel Hjaltason.
Dómari er Ólafur Ragnarsson og aðstoðardómarar þeir Gunnar Gylfason og Áskell Þór Gíslason.