Skagamenn unnu í kvöld frækinn sigur á Frömurum, 4:2, á Laugardalsvellinum í Landsbankadeild karla í knattspyrnu, eftir að hafa lent 0:2 undir í síðari hálfleik. Breiðablik gerði sér lítið fyrir og vann Keflvíkinga suður með sjó, 3:0, og Fylkir lagði Víking R. í Árbænum, 1:0.
Fylgst var með leikjunum í beinni textalýsingu á mbl.is og fer hún hér á eftir.
Fram - ÍA 2:4 (Jónas Grani Garðarsson 35., 59. - Bjarni Guðjónsson 65., Jón Vilhelm Ákason 73., Þórður Guðjónsson 77., Arnar Már Guðjónsson 90.)
Keflavík - Breiðablik 0:3 (Nenad Zivanovic 22., Prince Rajcomar 45., Steinþór Þorsteinsson 82.)
Fylkir - Víkingur R. 1:0 (Christian Christiansen 29.)
Flautað af í Laugardalnum þar sem Skagamenn sigra Fram 4:2 eftir að hafa lent 0:2 undir í síðari hálfleik.
90+3 2:4. Arnar Már Guðjónsson kemst innfyrir vörn Fram og skorar af öryggi fyrir Skagamenn.
86. Kenneth Gustafsson varnarmaður Keflvíkinga fær sitt annað gula spjald á stuttum tíma og er rekinn af velli í leiknum gegn Breiðabliki.
82. 0:3. Blikar komast þremur mörkum yfir í Keflavík. Steinþór Þorsteinsson sleppur innfyrir vörn heimamanna eftir sendingu frá Prince Rajcomar og skorar.
79. Skagamenn eru hársbreidd frá því að komast í 4:2 gegn Fram þegar Hannes Haraldsson ver naumlega hörkuskot Jóns Vilhelms Ákasonar frá vítateig.
77. 2:3. Þórður Guðjónsson kemur Skagamönnum yfir gegn Fram í Laugardalnum, klippir boltann viðstöðulaust í netið eftir fyrirgjöf Andra Júlíussonar frá hægri.
73. 2:2. Jón Vilhelm Ákason jafnar fyrir ÍA gegn Fram í Laugardalnum með skalla eftir aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar.
65. 2:1. Bjarni Guðjónsson minnkar muninn fyrir ÍA gegn Fram, rennir sér á boltann á markteignum eftir fyrirgjöf Jóns Vilhelms Ákasonar frá hægri og skorar.
59. 2:0. Jónas Grani Garðarsson skorar aftur fyrir Fram gegn ÍA. Hjálmar Þórarinsson átti laglega sendingu fyrir mark ÍA, Jónas Grani kastaði sér fram á markteignum og skoraði af harðfylgi.
53. Þórði Guðjónssyni Skagamanni virðist vera brugðið í dauðafæri í vítateig Framara en Kristinn Jakobsson dæmir ekki vítaspyrnu.
Flautað hefur verið til hálfleiks í öllum leikjunum.
45. 0:2. Breiðablik nær tveggja marka forystu í Keflavík. Prince Rajcomar fékk boltann frá Kristni Steindórssyni, lék á Ómar markvörð og skoraði, 0:2. Hann fær gula spjaldið fyrir að fagna með því að fara úr treyjunni.
35. 1:0. Jónas Grani Garðarsson skorar fyrir Framara, sleppur einn innfyrir vörn Skagamanna eftir sendingu frá Alexander Steen og rennir boltanum framhjá Páli Gísla í marki ÍA.
33. Heimir Einarsson skorar fyrir Skagamenn gegn með skalla eftir aukaspyrnu en Kristinn Jakobsson dæmir markið af vegna bakhrindingar.
29. 1:0 Fylkismenn hafa náð forystunni gegn Víkingi. Christian Christiansen skoraði markið með skalla.
22. 0:1. Breiðablik er komið yfir í Keflavík með marki frá Nenad Zivanovic. Kristinn Steindórsson sendi boltann fyrir markið og Zivanovic afgreiddi hann í netið úr markteignum.
20. Staðan er alls staðar 0:0 en nú glíma leikmenn við nýjar aðstæður, rigningu og rennbauta velli.
12. Henry Nwosu fer meiddur af velli hjá Fram og Jónas Grani Garðarsson kemur inná í hans stað.
Framarar eru með tvo nýja erlenda leikmenn í byrjunarliði sínu gegn ÍA, þá Henry Nwosu frá Þýskalandi og Henrik Eggerts frá Danmörku.
Lið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson, Guðjón Antoníusson, Guðmundur V. Mete, Kenneth Gustafsson, Þorsteinn Atli Georgsson, Marco Kotilainen, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen, Guðmundur Steinarsson, Pétur H. Kristjánsson.
Lið Breiðabliks: Casper Jacobsen, Árni K. Gunnarsson, Kári Ársælsson, Srdjan Gasic, Arnór Aðalsteinsson, Gunnar Örn Jónsson, Arnar Grétarsson, Nenad Petrovic, Nenad Zivanovic, Kristinn Steindórsson, Prince Rajcomar.