Þremur leikjum er nú nýlokið í 15. umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu. FH vann KR 5:1 eftir að eftir að hafa lent undir á upphafssekúndum leiksins og skoraði Ásgeir Ásgeirsson þrennu í leiknum, Fylkir vann HK 2:1 með tveimur mörkum frá Peter Gravesen, og ÍA vann Breiðablik einnig 2:1.
Fylgst var með gangi mála í leikjunum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fer hún hér á eftir.
FH-KR, 5:1
Leiknum er lokið með 5:1 sigri FH.
87. mín. Arnar Gunnlaugsson átti hörkuskot úr vítateignum en Stefán Logi varði vel.
82. mín. Tryggvi Guðmundsson átti góða aukaspyrnu frá hægri og Sigurvin Ólafsson skoraði með góðum skalla.
78. mín. Sigurvin Ólafsson átti hörkuskot úr vítateignum en boltinn fór framhjá markinu.
75. mín. KR-ingar hafa gert þrjár breytingar á liði sínu og eru þeir Rúnar Kristinsson, Óskar Örn Hauksson og Guðmundur Pétursson komnir inn á. Hjá FH eru þeir Sigurvin Ólafsson og Arnar Gunnlaugsson komnir inn á sem varamenn.
67. mín. Ásgeir Gunnar fullkomnaði þrennuna með góðu vinstrifótar skoti utan vítateigs. Staðan því orðin 4:1.
60. mín. Engin umtalsverð marktækifæri hafa litið dagsins ljós í seinni hálfleik á Kaplakrikavelli og staðan er óbreytt, 3:1.
Egill Már Markússon, dómari leiksins, hefur flautað til leikhlés.
40. mín. Eftir hornspyrnu Tryggva Guðmundssonar skallaði Tommy Nielsen knöttinn í netið af mikilli hörku.
37. mín. Jóhann Þórhallsson átti tvö hörkuskot úr þröngu færi vinstra megin í vítateignum, og í kjölfarið átti Björgólfur Takefusa bylmingsskot í tréverkið úr erfiðri stöðu.
35. mín. Ásgeir Gunnar skoraði aftur með góðu skoti af markteig eftir að hafa komist inn í skot Davíðs Þórs Viðarssonar.
29. mín. Guðmundur Sævarsson átti hörkuskot að marki KR en Stefán Logi Magnússon varði út í vítateiginn. Þar náði Ásgeir Gunnar Ásgeirsson til boltans og skoraði í autt markið.
23. mín. Há sending kom inn fyrir vörn FH og Jóhann Þórhallsson var við það að ná til boltans en Daði Lárusson markvörður kom út fyrir vítateiginn og spyrnti boltanum frá.
19. mín. Dennis Siim átti frábæra sendingu úr aukaspyrnu inn í vítateig KR, þar sem Matthías Vilhjálmsson skallaði boltann af krafti í markstöng KR-marksins.
1. mín. Eftir aðeins um 10 sekúndna leik skorar Bjarnólfur Lárusson stórglæsilegt mark með viðstöðulausu skoti í stöng og inn, eftir fyrirgjöf Sigmundar Kristjánssonar.
Lið FH: Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Dennis Siim, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Davíð Þór Viðarsson, Tryggvi Guðmundsson, Matthías Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson.
Lið KR: Stefán Logi Magnússon, Guðmundur Reynir Gunnarsson, Pétur Marteinsson, Gunnlaugur Jónsson, Bjarnólfur Lárusson, Atli Jóhannsson, Kristinn Magnússon, Sigmundur Kristjánsson, Grétar Ólafur Hjartarson, Jóhann Þórhallsson, Björgólfur Takefusa.
HK-Fylkir, 1:2
Leiknum er lokið með 2:1 sigri Fylkis.
81. mín. Páll Einarsson átti skot í stöng HK-marksins.
79. mín. Peter Gravesen skoraði sannkallað draumamark með viðstöðulausu skoti utan vítateigs. Sannkallað þrumuskot.
77. mín. Aukin harka hefur færst í leikinn en staðan er enn jöfn, 1:1. HK-ingar hresstust talsvert við markið og er leikurinn nokkuð jafn.
67. mín. Hermann Geir Þórsson skorar af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf og rispu upp hægri kantinn frá Calum Þór Bett.
55. mín. HK-ingar hafa byrjað af meiri krafti en Páll Einarsson, leikmaður Fylkis, hefur átt besta færi seinni hálfleiks. Hann slapp í gegnum vörn HK en Gunnleifur varði vel.
Magnús Þórisson, dómari leiksins, hefur flautað til leikhlés.
39. mín. Fylkismönnum tókst loks að brjóta ísinn eftir að hafa sótt grimmt meirihlutann af fyrri hálfleiknum. Peter Gravesen skoraði framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni markverði eftir sendingu frá Halldóri Hilmissyni. Gunnleifur hefur staðið sig frábærlega í marki HK og á tíðum bjargað meistaralega.
15. mín. Fylkismenn hafa verið betri án þess þó að skapa sér nein dauðafæri.
Lið HK: Gunnleifur Gunnleifsson, Ásgrímur Albertsson, Stefán Jóhann Eggertsson, Rúnar Páll Sigmundsson, Hermann Geir Þórsson, Finnbogi Llorens, Hólmar Örn Eyjólfsson, Calum Þór Bett, Þórður Birgisson, Hörður Már Magnússon, Jón Þorgrímur Stefánsson.
Lið Fylkis: Fjalar Þorgeirsson, Andrés Már Jóhannsson, Kristján Valdimarsson, David Hannah, Víðir Leifsson, Valur Fannar Gíslason, Ólafur Stígsson, Peter Gravesen, Páll Einarsson, Halldór Hilmisson, Albert Brynjar Ingason.
ÍA-Breiðablik, 2:1
Leiknum er lokið með sigri ÍA.
88. mín. Dario Cingel skoraði gott mark úr vítateignum eftir aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar. Blikar höfðu verið mun betra liðið í seinni hálfleik og meðal annars átti Srdjan Gasic skalla framhjá markinu úr góðu færi.
54. mín. Björn Bergmann Sigurðarson átti skot úr vítateignum sem fór af varnarmanni og í markstöng Blikamarksins.
52. mín. Páll Gísli Jónsson hefur þurft að taka á honum stóra sínum í upphafi seinni hálfleiks. Fyrst varði hann skalla frá Olgeiri Sigurgeirssyni, þá skalla frá Árna Gunnarssyni og loks skot Nenad Zivanovic úr góðu færi.
Kristinn Jakobsson, dómari leiksins, hefur flautað til leikhlés.
35. mín. Vjekoslav Svadumovic skoraði með góðu viðstöðulausu skoti utan vítateigs. Bjarni Guðjónsson tók aukaspyrnu og gaf boltann inn á vítateig, þaðan barst boltinn út og Svadumovic skoraði laglega.
33.mín. Jón Vilhelm Ákason fékk algjört dauðafæri en skot hans var vel varið af Casper Jacobsen.
22. mín. Prince Rajcomar skorar með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Gunnars Arnar Jónssonar. Glæsilegt mark.
12. mín. Blikar hafa átt tvö góð færi. Fyrst þrumaði Olgeir Sigurgeirsson boltanum að marki en Páll Gísli Jónsson varði í horn. Þá var Árni Kristinn Gunnarsson nálægt því að skora en hann ,,skóflaði" boltanum yfir markið.
6. mín. Björn Bergmann Sigurðarson gaf hættulega sendingu fyrir mark Blika en Andri Júlíusson náði ekki til boltans.
Lið ÍA: Páll Gísli Jónsson, Árni Thor Guðmundsson, Heimir Einarsson, Dario Cingel, Guðjón Heiðar Sveinsson, Helgi Pétur Magnússon, Bjarni Guðjónsson, Jón Vilhelm Ákason, Andri Júlíusson, Björn Bergmann Sigurðarson, Vjekoslav Svadumovic.
Lið Breiðabliks: Casper Jacobsen, Árni K. Gunnarsson, Srdjan Gasic, Nenad Petrovic, Arnór Aðalsteinsson, Gunnar Örn Jónsson, Arnar Grétarsson, Olgeir Sigurgeirsson, Kristinn Steindórsson, Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar.