Valsmenn eiga gullna möguleika á að verða Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu eftir 20 ára bið. Þeir unnu titilinn í 19. skipti árið 1987 en hafa frá þeim tíma mátt bíða lengur eftir því að vinna þessi mestu sigurlaun í íslenskri knattspyrnu en nokkru sinni áður í sögu félagsins. Eftir frækilegan sigur á meisturum FH, 2:0, í Kaplakrika í gær blasir það við Valsmönnum að takist þeim að sigra HK í lokaumferðinni á Laugardalsvellinum næsta laugardag er titillinn þeirra.
FH-ingar, sem fyrir leikinn í gær höfðu verið samfleytt í 60 umferðir á toppi deildarinnar, í 38 mánuði, verða að sigra í Víkinni og treysta á að HK-ingar komi þeim til hjálpar með því að taka stig af Valsmönnum.
Spennan í fallbaráttunni er enn meiri en áður þar sem ekkert fjögurra neðstu liðanna náði að vinna í gær. Fram og KR gerðu jafntefli, 1:1, HK gerði jafntefli við Breiðablik, 1:1, en Víkingar töpuðu 0:1 á Akranesi og standa illa að vígi fyrir lokaumferðina. Það liggur fyrir að Víkingar verða að ná í það minnsta jafntefli gegn FH til að eiga möguleika á að halda sér í deildinni.
Botnliðin fjögur mætast ekki innbyrðis í lokaumferðinni, þannig að allir möguleikar eru opnir.
Nýtt met var sett í efstu deild í gær þegar Sigurbergur Elísson úr Keflavík varð yngsti leikmaðurinn frá upphafi til að spila í deildinni.
Grindvíkingar eru líka komnir upp, eftir eins árs fjarveru, en Þróttarar og Eyjamenn slást um þriðja og síðasta sætið í úrvalsdeildinni í lokaumferð 1. deildar næsta föstudag.
Ítarleg umfjöllun er um Landsbankadeildina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.