Það eru hræringar í leikmannamálum knattspyrnuliðs HK í Kópavogi en Jón Þorgrímur Stefánsson er hættur hjá félaginu og hefur hann gert tveggja ára samning við Fram.
Á vef HK er einnig greint frá því að Ólafur V. Júlíusson hafi verið leystur undan samningi við knattspyrnudeild HK, að eigin ósk, en hann var samningsbundinn félaginu út keppnistímabilið 2008.
Jón kom til HK árið 2005 eftir átta ára fjarveru og var hann markahæsti leikmaður HK í 1. deildinni 2006 og í Landsbankadeildinni í ár. Hann er 32 ára, á að baki 77 meistaraflokksleiki með HK og skoraði í þeim 42 mörk. Í ár spilaði hann alla 18 leiki félagsins í Landsbankadeildinni, alla nema einn í byrjunarliði, og skoraði 5 mörk. Samtals lék hann 24 mótsleiki með HK á árinu 2007 og skoraði í þeim 8 mörk.
Ólafur, sem er 29 ára, er einn reyndasti leikmaður HK, sá fjórði leikjahæsti í sögu félagsins.