Sænskur knattspyrnumaður, Ivica Skiljo, er genginn til liðs við Keflvíkinga frá Örgryte og spilar með þeim á komandi keppnistímabili.
Skiljo er 27 ára gamall varnarmaður með tvöfalt ríkisfang, sænskt og króatískt, en hann hefur spilað undanfarin sjö ár í tveimur efstu deildunum í Svíþjóð, með Häcken í þrjú ár, með Trelleborg í tvö ár og svo með Örgryte undanfarin tvö ár. Ferillinn hjá öllum liðunum hefur verið áþekkur, Skiljo hefur fallið með þeim öllum úr sænsku úrvalsdeildinni á fyrsta ári og síðan leikið með þeim áfram í 1. deildinni í eitt til tvö ár.
Hann hefur leikið 50 leiki á þremur tímabilum í úrvalsdeildinni, þar af 39 í byrjunarliði, en ekki náð að skora mark. Í 1. deildinni hefur Skiljo spilað 95 leiki, þar af 88 í byrjunarliði, og skorað 16 mörk.