Flautað verður til leiks í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í dag og hefst þar með nýr kafli í sögu Íslandsmótsins. Nú eru liðin tólf sem skipa Landsbankadeildina en frá árinu 1977 hafa tíu lið leikið í efstu deild. Sem fyrr ríkir mikil spenna og eftirvænting hjá knattspyrnuáhugamönnum og með sífellt betri mannvirkjum, betri grasvöllum, betri umgjörð, meiri markaðssetningu og umfjöllun fjölmiðla og vonandi betri fótbolta sem liðin bjóða upp á hefur tekist að laða fleira fólk á völlinn.
Á toppnum í Evrópu
Í fyrra var 100.000 áhorfenda múrinn rofinn og þegar horft er til hinnar margfrægu höfðatölu dró Landsbankadeild karla að sér flesta áhorfendur hlutfallslega í deildum Evrópu keppnistímabilið 2006-07. Að jafnaði komu 1.329 áhorfendur á leik í Landsbankadeildinni á síðustu leiktíð – 4,2 af hverjum 1.000 íbúum landsins sáu leiki í deildinni og engin Evrópuþjóð gerði betur í þeim efnum. Næstir komu Kýpurbúar þar sem 3,4 af hverjum þúsund manns sóttu leikina í efstu deildinni þar í landi og skoska úrvalsdeildin varð í þriðja sæti en 3,2 af hverjum þúsund sóttu leikina. Helmingi fleiri hlutfallslega miðað við höfðatölu mættu á leikina í Landsbankadeild karla heldur en norsku úrvalsdeildina og þegar horft er til miðaverðs er hægt að komast á völlinn hér heima fyrir 1.200 krónur fyrir fullorðins einstakling en ódýrasti miðinn í stæði hjá norska meistaraliðinu Brann kostar 1.200 krónur og miðarnir í sæti hjá Brann kosta á bilinu 2.300 til 4.500 krónur.