"Ég er afar stoltur af mínu liði og frammistöðunni hér í dag gegn Valsmönnum," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur við fréttavef Morgunblaðsins eftir sigurinn á Íslandsmeisturum Vals, 5:3, í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar í fótbolta.
„Við spiluðum eins og við lögðum leikinn upp, sóttum á Valsmenn strax í byrjun og mig grunar að þeir hafi ekki búist við því. Við lögðum það upp að sækja með fljóta menn á vörnina hjá þeim, þeir hafa sýnt veikleika þar, og það gekk upp.
Að sjálfsögðu vorum við síðan búnir að undirbúa okkur undir að í varnarleiknum hvernig við gætum hamið Pálma Rafn Pálmason, sem er búinn að vera funheitur, og svo auðvitað Guðmund Benediktsson. Okkur tókst nokkurn veginn að loka á þá, sóknarleikur Vals byggir að mestu á þessum tveimur sem eru feykilega góðir leikmenn. Við sáum bara hve öflugt Valsliðið er, að lenda 5:1 undir og koma samt til baka og skora tvö mörk. Það er mikil seigla í þeirra liði og þeir koma til baka eftir þetta tap," sagði Kristján.
Hvernig leið þér eiginlega að vera kominn í 2:0 eftir aðeins 5 mínútur?
"Þá hugsaði ég bara - ja, við erum búnir að skora úr báðum okkar markskotum og það gerist ekki alltaf. En það sagði mér fyrst og fremst að liðið var tilbúið í leikinn. Strákarnir voru einbeittir á þá hluti sem þeir ætluðu sér að gera. Þar með var ég orðinn nokkuð rólegur um að aðrir hlutir í leik liðsins, eins og varnarleikurinn, myndu líka vera í lagi."
Ykkur var spáð 7.-8. sæti í deildinni. Hjálpuðu þeir spádómar ykkur í dag?
"Ábyggilega, og í raun vorum við aldrei í neinni umræðu fyrir mótið, hvorki varðandi efri eða neðri hluta, en margir létu aðeins skína í það að við gætum lent í erfiðleikum. Og það er ekkert skrýtið, við misstum fjóra menn úr byrjunarliðinu frá því í fyrra, þrjá þeirra af miðjunni, og það er ekkert óeðlilegt að horfa á þetta.
En menn gleymdu því að fyrir eru mjög góðir leikmenn í hverri línu liðsins og við höfum bætt inní það. Ég tala nú ekki um að fá svo þá Hólmar og Hörð í okkar hóp í gær, sem var mjög sterkt og gefur okkur mikið uppá breiddina, auk þess sem það lyfti hópnum gríðarlega, og félaginu í heild.
Ég var mjög ánægður með stuðningsmenn okkar í dag, þeir skyldu gíra sig uppí að vera skemmtilegir, og það var nokkuð góð mæting hjá okkar fólki," sagði Kristján en áhorfendur voru 1.920 talsins.
"Sigurinn sýnir okkur hvað við getum gert, segir okkur að við getum unnið bestu liðin. En ég er samt ósáttur við að við skyldum fá á okkur þessi þrjú mörk og það er eitthvað sem við þurfum að vinna í. Ég tel ólíklegt að við getum skorað fimm mörk í hverjum leik til að vinna. Við þurfum að laga þennan hluta leiksins hjá okkur," sagði Kristján, og vildi hrósa dómurum leiksins sérstaklega.
"Dómgæslan var framúrskarandi. Það er mikið gleðiefni að sjá hvernig þeir stóðu sig, allir fjórir. Allar stórar ákvarðanir voru réttar, og það sjá allir þegar þeir horfa á þetta í sjónvarpinu," sagði Kristján Guðmundsson.