Ummæli Guðjóns til umfjöllunar hjá aganefnd

Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er búinn að senda inn greinargerð til aganefndar Knattspyrnusambands Íslands og væntanlega verður þetta mál tekið upp á fundi nefndarinnar á morgun,“ sagði Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ við mbl.is rétt í þessu vegna máls sem snýr að ummælum Guðjóns Þórðarsonar þjálfara ÍA í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 Sport í gærkvöld. Þar lýsti Guðjón yfir mikilli óánægju með dómgæsluna í leik Keflavíkur og ÍA. „Þessi ummæli Guðjóns dæma sig sjálf og eru ekki knattspyrnunni til framdráttar. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá um mig þetta einstaka mál,“ sagði Þórir.

Í viðtalinu segir Guðjón m.a. „Ólafur Ragnarsson var stétt sinni ekki til sóma í dag. Það sem er alvarlegast er að það var fundur hjá dómurum fyrir skömmu síðan. Þar sem það var útmálað að Skagaliðið væri svo gróft og það yrði að taka á því. Þar var sérstaklega fjallað um það að þeir ætluðu að sýna Stefáni (Þórðarsyni) hvernig ætti að „díla“ við hlutina. Ég er ekki sáttur við að það séu haldnir fundir í bakherbergjum KSÍ þar sem er gengið gegn okkur. Og þeirri vinnu sem við erum að vinna. Ég vildi fá að sjá þrektölurnar hjá dómaranum. Ég vildi fá að sjá fituprósentuna. Ég vildi fá að sjá úthaldstölurnar. Ég veit það nefnilega að það voru menn sem fóru í test og þeir standast ekki þrektölurnar. Við æfum allan ársins hring og svo koma menn svona undirbúnir til leiks. Og þegar það eru haldnir fundnir í bakherbergjum KSÍ til þess að negla okkur og útmála hvernig við vinnum okkar vinnu. Það er algerlega óforsvaranlegt og öllum þeim sem að þessu standa til skammar,“ segir Guðjón m.a. í viðtalinu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert