Skoska dagblaðið Daily Record heldur áfram umfjöllun sinni um knattspyrnustjórastöðuna hjá Hearts í dag og segir að Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, sé líklegastur af þeim þremur sem komi til greina.
Blaðið segir að eigandinn, Vladimir Romanov, hafi lofað stuðningsmönnum Hearts því að til starfa verði ráðinn maður sem hafi reynslu af því að stjórna liðum á Bretlandseyjum.
Guðjón er sá eini af þremenningunum sem hefur þann bakgrunn en hann var knattspyrnustjóri hjá Stoke City, Barnsley og Notts County. Vladimir Weiss frá Slóvakíu stjórnar liði Artmedia Bratislava og Andrei Zygmantovic frá Hvíta-Rússlandi hefur stjórnað FBK Kaunas í Litháen og MTZ Ripo í Hvíta-Rússlandi.
Daily Record vitnar í ummæli Guðjóns í íslenskum fjölmiðlum og segir að Guðjón muni ekki láta Romanov segja sér fyrir verkum, verði hann ráðinn í stöðuna. Romanov er þekktur fyrir það hjá Hearts að skipta sér rækilega af vali og uppstillingu liðsins og hefur m.a. iðulega látið knattspyrnustjóra félagsins breyta liðinu á síðustu stundu eftir eigin geðþótta.