„Þetta er virðingarvottur sem ég kann alveg að meta og er heiður að taka á móti,“ segir Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, en hann er besti þjálfari fyrstu sjö umferða Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu.
Allt annað hefði verið óeðlilegt enda Keflavík í efsta sæti þeirrar deildar og hafa á köflum átt stórfína leiki þó stöku sinnum á milli hafi liðið fallið í meðalmennsku og þaðan af verra.
Kristján segir verðlaunin tvímælalaust hvatningu og ekki bara fyrir sig. „Fyrir allt liðið og stuðningsmennina líka enda fengu þeir sérviðurkenningu frá KSÍ og eiga það skilið. Nú reynum við að viðhalda góðu gengi okkar áfram.“